Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Njósnað um náungann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björgvin Guðmundsson skrifar,

Frá lokum nóvember hefur mörgum verið tíðrætt um að við ættum að tala vel um hvert annað í stað þess að níða skóinn af náunganum. Þessum skjótfengna náungakærleik hefur síðan vaxið ásmegin eftir því sem liðið hefur á umræðu um uppákomuna á Klaustur bar sem gerð var opinber eftir að ólöglegri hljóðupptöku var lekið í fjölmiðla. Við eigum auðvelt með að setja okkur á háan stall þegar aðrir hafa fallið af honum.

Þótt flestir venji sig ekki á að fara niðrandi orðum um annað fólk óska þess þó fáir að samtöl þeirra við vini eða samstarfsmenn séu hljóðrituð og prentuð til opinberrar birtingar. Við kjósum að njóta ákveðinnar friðhelgi þegar kemur að persónulegum samræðum og upplýsingum um einkahagi. Í því felst ekki endilega að við höfum eitthvað að fela.

Um þetta eru flestir sammála enda hefur íslensk löggjöf byggt á því sjónarmiði að vernda okkur fyrir hvers kyns hnýsni og söfnun persónulegra upplýsinga. Til dæmis gilda ákveðnar reglur um svokallaða hlustun símtala sem eiga einungis að vera á valdi stjórnvalda, þótt þeim heimildum hafi verið beitt frjálslega gegn borgurunum. Slíkt eftirlit þarf að rökstyðja með vísan til hugsanlegra lögbrota.

Við erum að feta varasama slóð ef við sýnum ákveðið umburðarlyndi gagnvart því að fylgst sé með okkur ef ske kynni að ósæmileg umræða eða hegðun ætti sér stað. Skiptir þá engu þótt slíkt sé réttlætt með vísun til göfugra hagsmuna heildarinnar, hvernig sem það er svo skilgreint. Til dæmis að fá innsýn í hugarheim fólks sem viðrar skoðanir sem við jafnvel fyrirlítum og erum hjartanlega ósammála. Þá fyrst reynir á umburðarlyndi þeirra umburðarlyndu.

Sé slíkt hins vegar samþykkt er réttindum borgaranna fórnað fyrir einhverja heildarhyggju, svipað og ráðstjórnarríkin réttlættu umfangsmikið eftirlit með fólki í þágu kerfisins. Í slíku andrúmslofti voru þeir, sem voru á skjön við ríkjandi viðhorf, ógn við samfélagið og án réttinda. Til að hafa upp á þeim voru borgararnir sjálfir gerðir að njósnurum.

- Auglýsing -

Þessi hugmyndafræði birtist til dæmis í viðhorfi fólks til þess hvort birta eigi tekjuupplýsingar einstaklinga opinberlega. Tilgangurinn er sagður helga meðalið og aðferðin hafi fælingarmátt gegn skattsvikum. Aðhaldið á að felast í því að við getum klagað nágranna okkar til yfirvalda ef við teljum að þeir lifi um efni fram miðað við uppgefnar tekjur. Kannað hvort hjólhýsið í bílastæðinu og utanlandsferðir fjölskyldunnar á síðasta ári samræmist innkomu fjölskyldunnar. Ekki er slík hugsun líkleg til að auka samheldni, samkennd og virðingu fólks á milli. Hún elur á sundrungu, illmælgi og öfund. Eitthvað sem allir vilja nú sporna gegn.

Í þessu viðhorfi felst enginn stuðningur við hótanir og lítilsvirðingu eða skattsvik og ójafna tekjuskiptingu. Við höfum bara aðferðir til að tækla þessa hluti. Án þess að fórna friðhelgi einstaklingsins með vísan til hagsmuna heildarinnar. Og njósna um náungann.

Höfundur er meðeigandi KOM ráðgjafar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -