Þau sem létust í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, á sunnudag, hétu Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir, fædd 1966, og Finnur Einarsson, fæddur 1965, þau voru til heimilis í Garðabæ.
Voru þau ökumaður og farþegi á bifhjólinu.
Tildrög urðu með þeim hætti að bifhjól lenti framan á húsbíl, en ökutækin voru að koma úr gagnstæðri átt. Annað bifhjól kom aðvífandi þegar áreksturinn varð og missti ökumaður þess stjórn á hjólinu og féll af því. Hann var fluttur á Landspítalann til aðhlynningar og er líðan hans eftir atvikum.
Mikill viðbúnaður var af hálfu viðbragðsaðila vegna slyssins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins, en ekki er grunur um ógætilegan akstur eða hraðakstur. Nýtt slitlag var á vegkaflanum þar sem slysið varð, og eru aðstæður hans til skoðunar. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Mbl.is að malbikið hefði verið „nánast eins og skautasvell“.
Þau voru sambýlisfólk, búsett í Garðabæ, og láta eftir sig fjögur, uppkomin börn.
Mannlíf vottar ættingjum og vinum innilega samúð.