Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Nóg púður eftir í tunnunni í Úkraínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aukin harka er hlaupin í stríðið á milli Úkraínu og Rússlands eftir að Rússar tóku þrjú skip úkraínska hersins og skipverja þeirra í gíslingu eftir að til átaka kom við Krímskaga. Stjórnvöld í Kænugarði svöruðu með því að setja herlög sem Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir nauðsynleg ef ske kynni að Rússar réðust til inngöngu í landið.

Stríð hefur geisað í Úkraínu allt frá því Rússar hertóku Krímskaga þvert á alþjóðalög. Stríðið er að mestu bundið við Luhansk og Donetsk í austurhluta landsins en þar hafa uppreisnarmenn, dyggilega studdir af Rússum, haldið uppi hernaði gegn úkraínska hernum. Yfir 10 þúsund manns hafa fallið í átökunum. Skærurnar í vikunni hófust þegar úkraínsku herskipin freistuðu þess að sigla frá Odessa til Mariupol sem bæði eru undir stjórn Úkraínu. Til þess þurftu þau að sigla fyrir Krímskaga, í gegnum Kerch-sund og inn á Azovshaf þar sem Rússar ráða ríkjum. Til átaka kom þegar skipin sigldu inn á Kerch-sund og slösuðust sex úkraínskir skipverjar áður en Rússar tóku skipin yfir. Vilja Rússar meina að skipin hafi siglt ólöglega inn í rússneska lögsögu. NATO boðaði til neyðarfundar á mánudaginn vegna atviksins þar sem niðurstaðan var að fordæma framferði Rússa.

Herlögin sem úkraínska þingið samþykkti á þriðjudaginn eru bundin við 10 af 27 héruðum landsins og gilda í 30 daga. Þetta eru þau héruð sem eiga landamæri að Rússlandi, Trans-Dniester-héraði í Moldavíu þar sem rússneski herinn er með viðveru og við ströndina að Azovshafi. Á þessum tíma verða mótmæli og verkföll bönnuð og almennir borgarar geta verið kallaðir í herinn. Poroshenko segir að þetta hafi ekki áhrif á forsetakosningarnar sem fyrirhugaðar eru í mars.

Litlir grænir menn á Krímskaga
Stríðið í Úkraínu hófst eftir að Viktor Yanukovych var hrakinn úr stóli forseta í byltingunni á Maidan-torgi í ársbyrjun 2014. Yanukovych var hliðhollur Rússum en upp úr sauð þegar hann bakkaði út úr viðskiptasamningi sem gerður hafði verið við Evrópusambandið og hugðist styrkja tengslin við Rússa enn frekar. Um svipað leyti fór að bera á „litlum grænum mönnum“ á Krímskaga, það er ómerktum hermönnum sem lögðu undir sig mikilvæg mannvirki. Velktist enginn í vafa um að þarna færu rússneskir hermenn sem nutu liðsinnis uppreisnarmanna hliðhollum Rússum. Í byrjun mars efndu uppreisnarmenn til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ þar sem samþykkt var að Krímskagi skyldi tilheyra Rússlandi og hafa Rússar haft fulla stjórn á Krímskaga síðan. Aðeins fimm ríki viðurkenna yfirráð Rússlands á skaganum sem hefur gríðarlegt hernaðarlegt mikilvægi fyrir Rússa, en þaðan stýra þeir Svartahafsflota sínum.

„Við erum að verða vitni að enn einni gáleysislegri ögruninni af hálfu Rússa. Bandaríkin munu sem fyrr standa með úkraínsku þjóðinni gagnvart ágengni Rússa.“
– Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Dæla vopnum og fjármunum í uppreisnarmenn
Í apríl 2014 hófust bardagar á milli uppreisnarmanna og úkraínska stjórnarhersins í Donetsk og Luhansk og standa þau átök enn yfir. Hernaður Rússa í Úkraínu er um margt óhefðbundinn. Rússar hafa löngum þrætt fyrir aðkomu sína að átökunum en ekki þarf að velkjast í vafa um að uppreisnarmennirnir eru ríkulega studdir af stjórnvöldum í Kreml, bæði að vopnum og fjármunum. Til að mynda er sannað að það voru uppreisnarmenn sem skutu niður farþegaþotu Malaysian Airlines yfir austurhluta Úkraínu sem varð 283 manns að bana. Samhliða því hafa Rússar beitt tölvuárásum í Úkraínu og notað ríkisfjölmiðla sína grimmt í áróðursstríði.

Viðskiptabannið bítur
Fjöldi ríkja, þar með talið Ísland, sameinaðist um að beita Rússa efnahagsþvingunum vegna framferðis þeirra í Úkraíanu. Frá því fyrsta viðskiptabannið – sem nær til stjórnvalda, fyrirtæka og einstaklinga – var sett á í febrúar 2014 hefur það verið framlengt með reglulegu millibili og mun að öllum líkindum verða framlengt aftur þegar það rennur út í febrúar á næsta ári. Aðgerðirnar hafa vissulega valdið Rússum vandræðum, en þau hafa einnig haft neikvæð áhrif á nokkrar af viðskiptaþjóðum Rússa í Evrópu. Í vikunni greindi Washington Post frá því hvernig Rússar hafa farið í kringum bannið og haldið áfram að fjármagna uppreisnarmenn í Úkraínu með því að flytja fjármuni milli Moskvu og Úkraínu í gegnum Suður-Ossetíu, landsvæði í Georgíu sem Rússar hafa hernumið frá því 2008.

„Þetta [Úkraínumenn] eru stigamenn. Þeir nota aðferðir stigamanna, fyrst ögra þeir, svo beita þeir valdi og loks saka þeir aðra um að beita valdi.“
– Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins.

- Auglýsing -

Pútín sér leik á borði
Ólíklegt er að skærurnar í vikunni endi með allsherjar stríði á milli ríkjanna tveggja. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að Rússar láti Krímskaga af hendi og láti af stuðningi við uppreisnarmenn í Úkraínu. Þvert á móti bendir margt til þess að átökin gætu harðnað enn frekar næstu misserin. Rússar gætu séð sér hag í því að magna upp átökin í aðdraganda forsetakosninganna í mars til að veikja stöðu Poroshenko. Að sama skapi hafa vinsældir Vladímírs Pútín heima fyrir dalað sökum þrenginga í efnahagslífinu og reynslan sýnir að þegar herinn hnyklar vöðvana aukast vinsældir hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -