Orkla ASA hefur keypt 20% hlut í Nóa-Síríus ehf. Í tilkynningu Orkla segir að Nói-Síríus sé leiðandi í salgætisframleiðslu á Íslandi og eigi fjölda vel þekktra vörumerkja. Nóa Konfekt, Nóa Kropp, Nóa Páskaegg og Konsum eru nefnd sem dæmi. Þá kemur fram að 70% tekna Nóa-Síríus komi frá sölu á innanlandsmarkaði.
Orkla er stórt matvælafyrirtæki og skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Fyrirtækið er með starfsemi á Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og Mið-Evrópu sem og Indlandi. Stafsemi Orkla teigir sig frá smásölu til matvælaframleiðslu, lyfjasölu og bakarí og brauðgerða. Velta þess í fyrra var í kringum 600 milljarðar íslenskra króna og eru starfsmenn þess rúmlega 18 þúsund. Nói Síríus er töluvert minna fyrirtæki. Með um 150 starfsmenn og veltu upp á 3,5 milljarða.
Samkvæmt samkomulagi um kaupin verður kaupverð ekki gefið upp. Þá hefur Orkla heimild til að kaupa upp allt hlutafé eftir 2020.