Birgitta Jónsdóttir hefur ekki verið áberandi í umræðunni síðan hún hætti á þingi haustið 2017. Á því varð þó breyting eftir yfirhalningu fyrrum samstarfsmanna á henni á fundi Pírata fyrir skömmu. Hún viðurkennir að þau ummæli hafi verið áfall, en hún vilji ekki fara niður á sama plan og þau með því að svara fyrir sig. Hún hafi lent í mun erfiðari raunum á lífsleiðinni og lært að takast á við sjálfa sig og áföllin.
Að spyrja Birgittu um einkalíf hennar og nánasta fólk er eins og að ganga á vegg. Hún segist alltaf hafa passað vel upp á það að blanda ekki einkamálum sínum í opinbera umræðu.
„Ég er mikill varðhundur friðhelgi einkalífsins,“ segir hún hlæjandi. „En ég hef verið í flóknu sambandi við sjálfa mig alllengi og þegar maður fer í svona brjálæði eins og ég hef verið í er enginn tími fyrir eitthvert tilhugalíf, en ég á þrjú börn sem eru öll orðin meira en átján ára og tókst það sem fáum sem hafa verið áberandi í stjórnmálum hefur tekist að passa vel upp á þau og blanda þeim ekki inn í það drullusvað sem pólitíkin er.
Það er eitt af því sem fólk gleymir þegar það segir ógeðslega ljóta hluti um aðra, oft án þess að hafa nokkurn tíma átt í samskiptum við viðkomandi, að þessir aðilar sem verið er að viðhafa svona stór orð um eiga sitt líf og sínar fjölskyldur.
Það má vera með harða gagnrýni á verk stjórnmálamanna en þegar farið er að sjúkdómsgreina aðra opinberlega má fólk aðeins fara að hugsa sinn gang. Hafi fólk eitthvað út á mann að setja sem manneskju er lágmarkskrafa að það sé tilbúið að segja það við mann augliti til auglitis í einkasamtali. Ef fólk er ekki tilbúið til þess þá blokkera ég það, alveg án þess að hika. Fólk verður að geta staðið undir því sem það segir.“
Birgitta hefur unnið mikið í sjálfri sér og sínum vandamálum í gegnum árin og segir það gjörsamlega hafa bjargað sér.
„Ég var svo heppin að detta inn í prógramm fyrir aðstandendur alkóhólista og það hefur algjörlega bjargað mér,“ útskýrir hún. „Það er erfitt að búa í litla samfélaginu þar sem allir þekkja alla og allir hafa skoðanir á öllum og sú sjálfsvinna sem fylgir því að fara í gegnum 12 spora kerfið hefur hjálpað mér óendanlega mikið.
„Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir.“
Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir. Verð svo rosalega hissa þegar það stendur ekki við það. Margir hafa sagt að ég sé óskaplega naív, en ég er bara svona og hef ekki áhuga á því breyta því.
Eitt af því sem er erfitt hér á Íslandi er hvað fólk sem er öðruvísi hefur litla möguleika á að blómstra og við sem þjóð þurfum að læra að vera umburðarlyndari gagnvart fjölbreytileikanum. Það eru nefnilega allir öðruvísi, ég hef aldrei hitt venjulega manneskju. Hún er bara mýta.“
Sjá einnig: „Ber engan kala til þessa fólks“
Mynd / Hákon Davíð Björnsson