Sjónvarpsmaðurinn Bear Grylls er hvað þekktastur fyrir alls kyns þætti þar sem hann þarf að bjarga sér einn og óstuddur í óbyggðum, til dæmis í þáttunum Man vs. Wild, þar sem hann heimsótti til að mynda Ísland.
Nú eru þættirnir Face the Wild, með fyrrnefndum Bear, að fara í loftið á Facebook, en í þeim býður Bear tíu aðdáendum sínum að koma með sér í óbyggðirnar. Að þessu tilefni ákvað vefsíðan Men’s Health að fá nokkur ráð frá Bear um hvernig eigi að komast af í óbyggðum, fjarri nútímatækni.
Var hann meðal annars spurður út í hvernig best væri að fara á salernið á víðavangi.
„Það er auðvelt. Maður verður að vera snöggur er stutta svarið,“ segir Bear og bætir við:
„Ef maður þarf að pissa þá er best að pissa í flösku og nota hana sem hitapoka til að halda á sér hita yfir nóttina.“
Þá er Bear hrifnastur af því að nota mjúk lauf til að skeina sér eftir að hann er búinn að hafa hægðir og grafa saurinn í holu. Það á þó ekki við þegar mjög kalt er í veðri.
„Það sem við gerðum í hernum var að kúka í plastfilmu, eins og maður finnur í eldhúsi, og síðan pakka saurnum inn og láta hann ganga til að hlýja okkur á höndunum.“
Þá vitum við það!