Þjófar voru víða á ferli í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Seint í gærkvöld var maður handtekinn, grunaður um innbrot í heimahús. Hann var gómaður skammt frá innbrotsstað með peninga og verðmæti sem hann gat ekki gert grein fyrir. Þjófurinn var í afar annarlegu ástandi. Hann var vistaður í fangaklefa þar sem hann hvílir á gúmmídýnu þar til hægt verður að ræða við hann með nýjum degi.
Annar þjófur var á ferðinni laust eftir klukkan tvö í nótt. Þjófavarnakerfi fór í gang við innbrotið. Lögregla fór strax á staðinn og náði manni á vettvangi. Sá er grunaður um innbrotið. Maðurinn var með þýfi á sér. Hann var vistaður í fangaklefa, rétt eins og kollega hans fyrr um kvöldið.
Upp úr klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um innbrot í kjörbúð þar sem fleiri en einn þjófur voru á ferð. Tilkynnandi gat lýst mönnunum sem voru að brjóta sér leið inn í verslunina. Tveir aðilar voru handteknir skammt frá vettvangi grunaðir um innbrotið.
Tilkynnt um líkamsárás í gærkvöld þar sem árásaraðili beitti piparúða og kylfu. Tvö fórnarlömb voru flutt á slysadeild . Málið er í rannsókn.
Ökumaður var stöðvaður við akstur, grunaður um að vera undir áhrifum áfengis. Þá hafði hann ekki öðlast ökuréttindi. Sá próflausi var látinn laus eftir hefðbundið ferli.