Mikið einhyrningaræði hefur gripið heimsbyggðina en Filippseyingar hafa tekið skrefið lengra og búið til fljótandi einhyrningaeyju í Subic-flóa, 130 kílómetrum vestur af höfuðborginni Manila.
Eyjan er kannski ekki eyja í eiginlegum skilningi þar sem hún er uppblásin, en dekkar þó svæði sem er um 3400 fermetrar. Á eyjunni eru rennibrautir, brýr, rólur, turnar og ýmislegt fleira skemmtilegt, en eyjunni hefur verið lýst sem stærsta, uppblásna leikvelli í Asíu.
Þegar að fólk er búið að leika yfir sig á eyjunni getur það slappað af á svæði sem heitir Pink Bali Lounge, sem er stútfullt af bleikum og fjólubláum sólhlífum og hægindastólum.
Fyrir tæplega þúsund krónur er hægt að kaupa aðgang að ströndinni við eyjuna allan daginn og klukkutíma af uppblásnu fjöri með einhyrningunum. Ef maður eyðir hins vegar um sextán hundruð krónum fær maður aðgang að einhyrningaeyjunni allan daginn, en hún er opin frá 8 til 17.50 á hverjum degi.