Stephenie Meyer, höfundur hinna geysivinsælu Twilight bóka sem þýddar voru á íslensku undir nafninu Ljósaskipti, hefur tilkynnt að fimmta bókin í flokknum, Midnight Sun, komi út þann 4. ágúst næstkomandi. Þar er sama sagan og Bella Swan segir í fyrri bókunum fjórum sögð út frá sjónarhóli Edwards Cullen, vampýrunnar sem heillar Bellu með ófyrirséðum afleiðingum. Upphaflega átti bókin að koma út fyrir tólf árum en hluta af henni var lekið á netið og hætti Meyer því við útgáfu hennar á þeim tíma.
Bækurnar um Edward og Bellu hafa selst í rúmlega hundrað milljónum eintaka og verið þýddar á 37 tungumál og kvikmyndirnar sem byggðar voru á bókunum nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma. Þar léku þau Robert Pattinson og Kristen Stewart parið unga og ekki spillti það fyrir áhuganum á kvikmyndunum að þau voru par í raunveruleikanum líka á meðan þau unnu að myndunum.
Samkvæmt frétt The Guardian um útgáfu Miðnætursólarinnar hrundi heimasíða höfundarins þegar hún tilkynnti úm útgáfuna, svo mikill var áhugi aðdáenda Ljósaskiptanna á málinu. Ekki er að efa að íslenskir aðdáendur séu á sama báti og spurning hvort vænta megi íslenskrar útgáfu í jólabókaflóðinu í ár.