GDRN, Víkingur Heiðar, Auður, Karl Olgeirsson, Valdimar, Jónas Sig og JóiPé og Króli fengu flest verðlaun þegar Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarárið 2018 voru veitt í Hörpu í gærkvöldi. Jón Ásgeirsson fékk sérstök heiðursverðlaun á athöfninni og boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði úr ýmsum áttum.
Fjölbreytni og fagmennska var í fyrirrúmi á glæsilegri verðlaunahátíð tónlistargeirans þegar íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Silfurbergi Hörpu í gærkvöldi. Það má með sanni segja að bjartar vonir síðustu ára séu tilbúnar að stimpla sig inn og gott betur því á sviði stóð ný kynslóð verðlaunahafa á Íslensku tónlistarverðlaununum sem átti stóran þátt í að setja sinn svip á kvöldið og gera það eftirminnilegt. Undanfarið hefur mikið verið rætt um að kynslóðarskipti séu að eiga sér stað í íslensku tónlistarlífi og ekki verður undan því hlaupið að leiða hugann að því þegar litið er til verðlaunahafa kvöldsins.
Tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni hlaut fern verðlaun á hátíðinni og má segja að þetta hafi verið kvöldið hennar. Plata GDRN, Hvað ef, var valin poppplata ársins en hér er á ferðinni einstaklega frambærileg frumraun þar sem allt smellur saman, frábærar lagasmíðar og áhugaverðir textar.
Lagið, Lætur mig, sem hún syngur með Flóna og samið með ra:tio var valið popplag ársins og Guðrún Ýr var kosin söngkona ársins í flokki popp, rokk, raf- og hiphopptónlistar. Að endingu fékk GDRN verðlaun fyrir myndband ársins við lagið, Lætur mig, en myndbandinu er leikstýrt af Ágústi Elí Ásgeirssyni. Frábær uppskera hjá vaxandi listakonu.
Auðunn Lúthersson (Auður) er búinn að stimpla sig rækilega inn og átti hreint út sagt frábært ár í fyrra og uppskar eftir því á verðlaunaafhendingu kvöldsins. Plata hans, Afsakanir, var valin plata ársins í raftónlist auk þess sem Auður var valinn lagahöfundur ársins 2018 en platan þykir afar heilsteypt verk sem einkennist af sterkum lagasmíðum og nær óaðfinnanlegri upptökustjórn og hljóðblöndun. Þess má geta að Auður hlaut flestar tilnefningar í ár eða alls átta talsins en hann hlaut jafnframt tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017.
Í heildina voru um 37 verðlaun afhent á verðlaunaafhendingunni en þess fyrir utan voru verðlaunin fyrir plötuumslag ársins afhent sérstaklega í þættinum Menningunni á RÚV kvöldið áður. Hér verður tæpt á öllu því helsta og neðar í tilkynningunni má finna heildarupptalningu allra verðlaunahafa.
Plata ársins 2018 í Rapp og hiphopp var að þessu sinni skífan, Afsakið hlé, með JóaPé & Króla. Þeir félagarnir áttu líka lag ársins í flokki rapptónlistar en þar var lagið, Í átt að tunglinu, sem bar af í ár að mati dómnefndar og ekki má betur sjá en að JóiPé & Króli eru komnir til að vera.
Í flokki sígildrar og samtímatónlistar var það Víkingur Heiðar Ólafsson sem fór heim með verðlaunagripinn fyrir plötu ársins fyrir hljóðritun á hljómborðstónlist eftir Johann Sebastian Bach. Óhætt er að fullyrða að Víkingur geri tónlist þessa mikla meistara barokksins frábær skil en Víkingur Heiðar var einnig valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga en á liðnu ári hélt hann frábæra útgáfutónleika til þess að fagna útgáfu plötu með tónlist Johann Sebastians Bach auk þess sem hann frumflutti nýjan píanókonsert Hauks Tómassonar.
Spectra eftir Önnu Þorvaldsdóttur var valið tónverk ársins í sígildri og samtímatónlist en hljóðheimur þess og línur eru hvort tveggja í senn seiðandi en jafnframt ögrandi tónvefur að mati dómnefndar.
Strokkvartettinn Siggi var valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum hópa en kvartettinn hefur frá upphafi verið í fremstu röð kammerhópa og unnið ötullega að nýsköpun í tónlistarlífi hér á land. Söngvari ársins var valinn Oddur Arnþór Jónsson fyrir burðarhlutverk í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason þar sem hann túlkaði hlutverk Michael stórkostlega í eftirminnilegri uppfærslu, bæði hvað varðar leik og söng. Söngkona ársins er Hallveig Rúnarsdóttir sem blómstraði í verkefnum sínum á liðnu ári og hefur einstakt lag á að snerta hjörtu áheyrenda. Hún heillaði áhorfendur meðal annars með söng sínum í Klassíkin okkar og skemmti ungum sem öldnum í titilhlutverkinu í frumflutningi á óperunni Gilitrutt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.
Óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason í uppsetningu Íslensku Óperunnar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins í sígildri og samtímatónlist. Þessi uppfærsla á magnþrunginni óperu þótti stórfengleg og vel skipuð frábærum listamönnum í hverju hlutverki, bæði innan sviðs og utan. Einsöngvarar ásamt og kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn tónskáldsins Daníels Bjarnasonar sköpuðu eina eftirminnilegustu óperusýningu sem sett hefur verið upp hér á landi. Tónlistarviðburður ársins úr flokki hátíða eru Óperudagar í Reykjavík en með fádæma framtakssemi og sterkri listrænni sýn hafa stjórnendur Óperudaga sýnt fram á nýja möguleika og hinar fjölbreyttustu birtingarmyndir óperuformsins, auk þess að fara nýstárlegar leiðir í að ná til og heilla áhorfendur.
Verðlaun fyrir útgáfu ársins í flokki kvikmynda og leikhústónlistar voru veitt í þriðja sinn og komu í hlut Davíðs Þórs Jónssonar fyrir músíkina við kvikmyndina Kona fer í stríð. Í huga dómnefndar er tónlistin við mynd Benedikts Erlingssonar algerlega órofa hluti af myndmáli myndarinnar.
Í flokki popp og rokktónlistar réð fjölbreytnin ríkjum í ár en verðlaun skiptust á nokkrar hendur. Valdimar átti rokkplötu ársins, en platan Sitt sýnist hverjum, þykir afar sterkt verk þar sem að textarnir spila stóra rullu og hljóðheimurinn er bæði stór og mikilfenglegur. Valdimar Guðmundsson var valinn söngvari ársins fyrir frábæra frammistöðu sína Sitt sýnist hverjum en Valdimar býr yfir einstaklega fallegri rödd með ótal blæbrigðum, flauelsmjúk og kraftmikil í senn. Verðlaunin fyrir rokklag ársins féllu í skaut Benny Crespo’s Gang fyrir lagið, Another Little Storm en lagið þykir að mati dómnefndar gríðarlega vel samið, grípandi og vel flutt. Textahöfundur ársins var Svavar Pétur Eysteinsson sem á nýjustu plötu Prins Póló heldur áfram að syngja skemmtilega texta af barnslegri einlægni, í bland við alvarleika og þráðbeinan sannleik enda oftast gott kaffi þegar Svavar Pétur á í hlut.
Lagahöfundur ársins var eins og fyrr hefur komið fram Auðunn Lúthersson (Auður) og söngkona ársins var valin Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN).
Hljómsveitin Hatari hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins og kemur sú nafnbót eflaust engum á óvart enda er sveitin kraftmikið listrænt atriði sem fær alla sem á horfa til þess að staldra við og hlusta (og jafnvel dansa smá líka).
Aldrei fór ég suður var valinn tónlistarviðburður ársins 2018 en á síðustu 15 árum hefur hátíðin fest sig rækilega í sessi sem einn af stóru viðburðunum í íslensku tónlistarlífi. Á Aldrei fór ég suður eiga allar tegundir íslenskrar dægurtónlistar sér samastað og í fyrra var slegið aðsóknarmet en talið er að íbúafjöldi Ísafjarðarbæjar hafi tvöfaldast á meðan á hátíð stóð.
Sólhvörf var valin þjóðlagaplata ársins en þar tekur sveitin Umbra hlustandann í heillandi ferðalag þar sem tónlist tengd dimmum vetrardögum er í forgrunni. Virkilega vönduð plata þar sem lögin eiga það sameiginlegt að vera framúrskarandi útsett og flutt. Arnór Dan hlaut verðlaun fyrir lag ársins í opnum flokki, en í laginu Stone By Stone fetar Arnór Dan nýjar brautir þar sem fegurð og framúrstefna fá að njóta sín til fullnustu í firnagóðri tónsmíð.
Gyða Valtýsdóttir átti plötur ársins í opnum flokk en á Evolution þykir hún sýna gríðarlega sterk höfundareinkenni á sinni fyrstu sólóplötu með frumsömdu efni. Þversögn einkennir plötuna en hún er kraftmikil og sannfærandi, en um leið viðkvæmnisleg og blíð.
Veit voru verðlaun fyrir upptökustjórn og það var Ómar Guðjónsson sem hlaut þau fyrir heilsteypta hljóðmynd á plötu Jónas Sig, Milda hjartað. Hljóðheimur Milda hjartans, skírskotar að sumu leyti til flauelsmýktar söngvaskálda áttunda áratugarins en tekur líka til hráleika og kynngikrafts, eins og heyra má í smellinum „Dansaðu.“ Heildarhljómurinn er lífrænn og umlykjandi og heldur hlustandanum föngnum allt til enda segir í umsögn dómnefndar.
Milda hjartað hlaut fleiri verðlaun en á þriðjudaginn var tekið smá forskot á sæluna en þá voru veitt verðlaun fyrir plötuumslag ársins í þættinum Menningunni á RÚV. Verðlaunin fyrir plötuumslag komu í hlut Ámunda Sigurðarsonar hönnuðar og Jónatans Grétarssonar ljósmyndara en það var umslagið fyrir plötu Jónasar Sig., Milda hjartað sem bar sigur úr bítum. Sterk ljósmynd af andliti höfundar undirstrikar titil plötunnar og efniviðinn vel. Jónas er í senn mildur í fasi og einbeittur, nákvæmlega eins og djúpir textarnir sem fjalla um styrk kærleikans í viðsjárverðum samtímanum.
Í flokki djass og blús var það Karl Olgeirsson sem stóð uppi með tvenn verðlaun, fyrir djassplötu ársins og sem lagahöfundur ársins. Plata Karls, Mitt bláa hjarta þykir með afbrigðum góð en hún inniheldur fjórtán nýja djasssöngva. Bæði tónsmíðar og textar eru grípandi með hnyttnum skírskotunum í íslenskan veruleika en fjöldi söngvara og hljóðfæraleikara kemur fram á plötunni og er hún kærkomin viðbót í flóru íslenskra djasssöngva. Lagasmíðar plötunnar þykja sem fersk vindhviða inn í tónlistarlífið, fjölbreytt og aðgengileg án þess að gefa nokkurn afslátt af fagurfræði eða innihaldi.
Bugða eftir Agnar Már Magnússon hlaut verðlaun sem tónverk ársins í djass og blús en þar hlykkjast raddir píanós og gítars hverjar um aðra í fallegu og áhugaverðu samtali sem unun er að hlýða á. Tónlistarflytjandi ársins úr hópi einstaklinga var Kjartan Valdemarsson, en Kjartan er einn virkasti og ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar. Hann hefur leikið inn á fjöldann allan af hljómplötum, á tónleikum og unnið mikið í leikhúsi, útvarpi og sjónvarpi – ýmist sem tónskáld, útsetjari eða hljóðfæraleikari. Tónlistarflytjandi ársins úr flokki stærri sveita og hópa var Stórsveit Reykjavíkur en starfsemi hennar var með blómlegasta móti á síðasta ári. Hljómsveitin hélt marga fjölbreytta og metnaðarfulla tónleika þar sem lögð var áhersla á nýja tónlist, bæði innlenda sem erlenda.
Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans var kosinn tónlistarviðburðir ársins 2018. Í fyrra var tuttugasta og fyrsta starfsár Múlans og var árið að vanda metnaðarfullt og sýndi gott þversnið af því sem er að gerast í íslensku djasssenunni. Fjöldi tónleika voru 43 og fram komu margir af fremstu tónlistarmönnum og -konum landsins ásamt nokkrum vel völdum erlendum gestum.
Björtustu vonirnar
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, veitti þrenn verðlaun á hátíðinni sem komu í hlut bjartra vona í íslensku tónlistarlífi.
Í flokki sígildrar og samtímatónlistar er það Björk Níelsdóttir sem er bjartasta vonin. Björk hefur verið að skapa sér sess sem einn af áhugaverðustu tónlistarmönnum okkar. Hún starfar sem tónskáld, hljóðfæraleikari og einsöngvari og syngur jafnt þjóðlagatónlist, sígilda og samtímatónlist Hún starfar með kammerhópunum Duplum dúó og Stirni emsemble hér heima auk þess að taka þátt í erlendu samstarfi. Einstaklega fjölhæf og næm listakona sem verður afar spennandi að fylgjast með í framtíðinni.
Í flokki djass og blús er það Daníel Helgason gítarleikari sem hlýtur þessa nafnbót í ár. Daníel Helgason er einstaklega fjölhæfur gítarleikari og kemur víða við í starfi sínu sem flytjandi lifandi tónlistar og í hljóðverum landsins. Hann er einn fárra íslenskra gítarleikara sem hefur tileinkað sér kúbanska tresgítarinn og kafað í stílbrögð tónlistar Suður Ameríku. Ásamt flytjandastarfinu er Daníel afkastamikið tónskáld og meðlimur tríósins DÓH sem sendi frá sér plötuna DÓH á árinu.
Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raftónlist var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 eins og undanfarin ár. Kosning fór fram á vef Rásar 2 en það er Bríet sem hlýtur nafnbótina í ár, bjartasta vonin 2019. Bríet gaf út sína fyrstu smáskífu árið 2018 og vakti strax mikla athygli enda setur eiðandi rödd Bríetar, næmni hennar og góð túlkun hana í fremstu röð söngkvenna. Það má búast við því að árið 2019 verði spennandi en von er á nýju efni auk þess sem hún er nú þegar farin að þreifa fyrir sér erlendis.
Heiðursverðlaun
Jón Ásgeirsson hlýtur heiðursverðlaun Samtóns í ár en það var mennta og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir sem afhenti Jóni verðlaunin og ekki annað sagt en að Jón Ásgeirsson sé verðskuldaður heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Jón Ásgeirsson er fæddur á Ísafirði 1928 og varð því níræður á síðasta ári. Jón hefur á langri æfi verið afkastamikið tónskáld, kennari og höfundur kennslubóka í tónlist. Á meðal kammerverka hans má nefna strengjakvartetta, blásarakvintetta, oktett fyrir blásara og Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit. Konsertarnir eru sex fyrir ýmis hljóðfæri; síðast var flautukonsert hans frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar á þessu ári.
Jón Ásgeirsson er einna þekktastur fyrir söngtónlist sína; sönglög, kórverk og óperur. Þá samdi Jón ballettinn Blindisleik sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu árið 1979. Einsöngslög Jóns eru um 90 talsins. Hæst ber lög hans við ljóð Halldórs Laxness: Maístjörnuna, Hjá lygnri móðu og Vor hinsti dagur, þá má nefna sönglagaflokkinn Svartálfadans við ljóð Stefáns Harðar Grímssonar og hvert mannsbarn á Íslandi þekkir kórlag hans við vísur Vatnsenda-Rósu: Augun mín og augun þín. Á meðal stærri kórverka Jóns eru Tíminn og vatnið við ljóð Steins Steinarrs og Á þessari rímlausu skeggöld við samnefnt kvæði Jóhannesar úr Kötlum.
Jón kenndi um árabil við Kennaraskóla Íslands, síðar Kennaraháskóla Íslands. Hann var skipaður prófessor við skólann árið 1996, fyrstur allra til þess að gegna slíkri stöðu í listgreinum á Íslandi. Tólf árum síðar, árið 2008, var honum veitt doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir framlag hans til tónlistaruppeldis í skólum landsins.
Saga Garðarsdóttir var kynnir kvöldsins í ár. Skemmtiatriði á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár komu úr ýmsum áttum en áttu það öll sameiginlegt að vera tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Fram komu á hátíðinni: Hórmónar, Víkingur Heiðar Ólafsson, GDRN, Auður, Karl Olgeirsson ásamt Ara Braga Kárasyni og Ragnheiði Gröndal, Ylja og að lokum var það hljómsveitin Valdimar sem stimplaði hátíðina út.
Alls voru veitt 38 verðlaun fyrir tónlistarárið 2018 en það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum. Að baki Samtón standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands, Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.
Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.
Frekari upplýsingar um Íslensku tónlistarverðlaunin má finna á heimasíðu hátíðarinnar: www.iston.is
Hér má sjá alla verðlaunahafana Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2018:
Opinn Flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist
Útgáfa ársins – Kvikmynda- og leikhústónlist
Davíð Þór Jónsson – Kona fer í stríð
Plata ársins – Opinn flokkur
Gyða Valtýsdóttir – Evolution
Plata ársins – Þjóðlagatónist
Umbra – Sólhvörf
Lag/tónverk ársins opinn flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist
Lag ársins í opnum flokki
Arnór Dan, Stone by stone
Plötuumslag ársins
Jónas Sig. – Milda hjartað
Hönnun: Ámundi Sigurðsson
Ljósmyndir: Jónatan Grétarsson
Upptökustjórn ársins:
Ómar Guðjónsson fyrir Milda hjartað – Jónas Sig
Rokk, popp, raftónlist, rapp og hiphopp
Plata ársins – Popp:
GDRN – Hvað ef
Plata ársins – Rokk:
Valdimar – Sitt sýnist hverjum
Plata ársins – Rapp/Hiphopp:
JóiPé & Króli – Afsakið hlé
Plata ársins – Raftónlist:
Auður – Afsakanir
Lag ársins – Popp:
GDRN – Lætur mig
Lag ársins – Rokk:
Benny Crespo’s Gang – Another Little Storm
Lag ársins – Rapp/Hiphopp:
JóiPé & Króli – Í átt að tunglinu
Lagahöfundur ársins
Auðnn Lúthersson (Auður)
Textahöfundur ársins
Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló)
Söngkona ársins
Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN)
Söngvari ársins
Valdimar Guðmundsson
Tónlistarviðburður ársins
Aldrei fór ég suður
Tónlistarflytjandi ársins
Hatari
Bjartasta von Rásar 2 og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Bríet
Tónlistarmyndband ársins 2018 – Albumm.is og Íslensku Tónlistarverðlaunin
GDRN – Lætur mig ft. Floni & ra:tio
Leikstjóri: Ágúst Elí
Sígild og samtímatónlist
Plata ársins – Sígild og samtímatónlist
Johann Sebastian Bach – Víkingur Heiðar Ólafsson
Tónverk ársins – Sígild og samtímatónlist
Spectra – Anna Þorvalds
Tónlistarflytjandi ársins – einstaklingar : Sígild og samtímatónlist
Víkingur Heiðar Ólafsson
Tónlistarflytjandi ársins – hópar : Sígild og samtímatónlist
Strokkvartettinn Siggi
Söngvari ársins – Sígild og samtímatónlist
Oddur Arnþór Jónsson
Söngkona ársins – Sígild og samtímatónlist
Hallveig Rúnarsdóttir
Tónlistarviðburður ársins – Tónleikar : Sígild og samtímatónlist
Brothers eftir Daníel Bjarnason – Íslenska Óperan, Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einsöngvurum og kór Íslensku óperunnar
Tónlistarhátíð ársins – hátíðir : Sígild og samtímatónlist
Óperudagar í Reykjavík
Bjartasta Vonin – Sígild og samtímatónlist
Björk Níelsdóttir
Djass og blús
Plata ársins – Djass og blús
Karl Olgeirsson – Mitt bláa hjarta
Tónverk ársins – Djass og blús
Bugða – Agnar Már Magnússon
Lagahöfundur ársins – Djass og blús
Karl Olgeirsson
Tónlistarflytjandi ársins – Einstaklingar : Djass og blús
Kjartan Valdemarsson
Tónlistarflytjandi ársins – Hópar : Djass og blús
Stórsveit Reykjavíkur
Tónlistarviðburðir ársins – Djass og blús
Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans
Bjartasta vonin – Djass og blús
Daníel Helgason
Heiðursverðlaun og sérstök verðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna
Heiðursverðlaun Samtóns
Jón Ásgeirsson
Myndir / Íslensku tónlistarverðlaunin