Alexandria Ocasio-Cortez hefur komið eins og stormsveipur inn í bandarísk stjórnmál.
Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez leiðir nú hóp framsýnna demókrata sem krefjast þess að gerður verði nýr grænn sáttmáli „New Green Deal“ sem gengur út á útfösun jarðefnaeldsneytis og að sköpun umhverfisvænna starfa. Fyrir skömmu tók hún þátt í mótmælum í tengslum við loftslagsbreytingar og skort á aðgerðum demókrata í þinginu á skrifstofu Nancy Pelosi, sem er hennar flokkssystir og leiðir demókrata í húsinu. Sama dag tilkynnti hún að hún myndi í prófkjörum fyrir kosningar 2020 styðja aktívista sem ætla fram úr röðum demókrata. Með því lýsir hún yfir vantrausti á nýja samstarfsmenn sína, núverandi sitjandi fulltrúa demókrata.
Ocasio-Cortez er í hópi sósíal-demókrata enda vann hún í kosningabaráttu Bernie Sanders. Hún var kosin á þing í fjórtánda umdæmi New York borgar. Merkilegt nokk var hún líka kosin sem fulltrúi fimmtánda umdæmis í prófkjöri demókrata, þó hún væri ekki einu sinni í framboði þar. Því þurfti hún að velja um kjördæmi. Augljóst er að hún á sér marga fylgjendur í borginni.
Alin upp af einstæðri móður í Bronx
Þingkonan er nýorðin 29 ára og hefur þar með sett met sem yngsta kjörna þingkonan í ameríska þinginu. Hún er fædd í Bronx, alin upp af einstæðri móður sem þurfti að skrúbba klósett og harka til að eiga fyrir reikningum. Ung fór Ocasio-Cortez að hjálpa við heimilishaldið m.a. með því að vinna á bar. Kosningabarátta hennar hefur mikið snúist um að hún ætli að standa með sinni stétt, færa valdið til fólksins og hún sé málsvari almennings og breytinga í bandarískum stjórnmálum. Andstæðingar hennar hafa þegar ráðist á hana m.a. með því að vega að því að hún sé málsvari láglaunafólks, með því að nota jakka sem hún klæddist í þinginu, með dylgjum um að hann væri of fínn.
Innan Washington hefur hún verið að þyrla upp ríkjandi hefðum, vill opna störf þingsins fyrir almenningi og gera þingið mannlegra með því að nota samfélagsmiðla í meira mæli. Ocasio-Cortez er orðin stjarna á stuttum tíma á smáforritinu Instagram með um milljón fylgjendur. Áðurnefnd Nancy Pelosi, sem hefur í áratugi verið í bandarískum stjórmálum og sem leiðir demókrata í þinginu, hefur til samanburðar aðeins um 130.000 fylgjendur.
Það verður áhugavert að fylgjast með Ocasio-Cortez og nýjum þingmönnum demókrata á næstu misserum, en athygli vekur að sósíalismi er að riðja sér til rúms í bandarískum stjórnmálum. Skilaboð þessa nýju þingmanna eru talin róttæk og ekki kerfislæg, en það var talinn einn helsti styrkleiki Trump og há Hillary Clinton að hún væri of kerfislæg. Hvort sterka mótvægið sem nær að velta Donald Trump úr sessi sé fólgið í sterkum sósíalisma verður að koma í ljós.
Mynd / Af Facebook síðu Alexöndiu