Flest hugsum við mikið um mat og á hverjum degi tökum við ákvarðanir um það bæði hvað við borðum og hversu mikið af því. Matur er enda forsenda fyrir því að við höldum lífi. Markmið neðangreinds verkefnis er að fá fólk til að hugsa um matinn á annan hátt. En í verkefninu segir að allir þurfi að leggja sitt af mörkum til að draga úr matarsóun og um leið stuðla að sjálfbærari og umhverfisvænni heimi.
Rakel Jónsdóttir er útskrifaður menningarmiðlari frá Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarkona. Hún hefur fjallað um í útvarpsþætti sínum um matarsóun.
„Það er erfitt að horfa á eitthvað sem er okkur svo mikilvægt í daglegu lífi á annan hátt. Og enn erfiðara sem eitthvað fyrirbæri sem verið er að rannsaka. En ég held að það sé mikilvægt í þessu samhengi til þess að búa til nýjar tengingar, nýtt hegðunarmunstur og til þess að skapa nýjar venjur í kringum mat sem gæti haft jákvæð áhrif. Það er þörf á heildrænni lausnum hvað varðar fæðuöryggi og matarsóun. Matur og matarsóun tengist svo líka loftslagsvánni og umhverfisvernd. Þar með gæti hann mögulega einnig verið ein af mörgum leiðum til þess að bregðast við þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag,“ útskýrir Rakel.
Skoða tengsl manna við mat
Þættirnir Matasófíur voru fluttir á Rás 1 og í þeim segist Rakel skoða tengsl manns við mat á ólíkum söguskeiðum og spegla þau við orðræðu samtímans.
horfa í eigin barm og skoða sína eigin matarhegðun og þær tengingar sem það hefur við mat
„Leitast er við að koma með annars konar nálgun á málefni sem varða matarsóun, fæðuöryggi og virðingu gagnvart mat. Verkefnið er því eins konar tilraun til þess að bregðast við því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag og vera um leið eins konar hugvekja fyrir fólk til þess að horfa í eigin barm og skoða sína eigin matarhegðun og þær tengingar sem það hefur við mat.“
30% af framleiddum mat endar í ruslinu
Mikil umræða hefur verið um matarsóun undanfarin ár og samkvæmt skýrslu íslenskra stjórnvalda um aðgerðaáætlun gegn matarsóun, sem kom út í fyrra, er áætlað yfir yfir 30% af þeim mat sem framleiddur er í heiminum nýtist ekki sem skyldi og endi í ruslinu. Rakel bendir á að fjöldi vísindalegra gagna sýni mikilvægi þess að endurhugsa matvælakerfið á róttækan hátt. „Í þessu verkefni var matur hins vegar rannsakaður og skoðaður á huglægari hátt og leitast við að vekja hjá hlustendum hugrenningartengsl,“ segir hún enn fremur.
Hugmyndin að þáttunum kviknaði þegar Rakel vann að meistaraverkefni sínu í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands en því lauk hún fyrir um ári. Í lokaverkefninu rýndi hún í möguleika svokallaðs borgarbúskapar sem snýst um að nýta auð eða vannýtt rými innan borgarmarka til matvælaframleiðslu, ýmist utan- eða innandyra.
„Í því ferli mátti sjá að þrátt fyrir þau fræðilegu gögn sem liggja fyrir í tengslum við málefni er varða matarsóun og fæðuöryggi þá eru breytingar að hálfu yfirvalda hægfara og auk þess má greina ákveðið aðgerðarleysi og jafnvel vanmáttakennd hjá almenningi. Ég ritaði niður í þessu ferli á blað orðin „matarsóun“ og „nihilismi“ og út frá því hóf ég að rannsaka tengsl manns við mat í þessu samhengi. Ég leitaðist eftir því að horfa á mat líkt og hann væri tungumál, sem hann vissulega er að einhverju leyti, og í því samhengi að greina orðræðuna sem er í gangi og hvað hún endurspeglaði um tíðarandann. Ég skoðaði þannig hvaða aðrar leiðir væri mögulega hægt að fara til þess að bregðast við þessu ástandi, hvernig hægt er að nálgast þessi vandamál á tilfinningalegan hátt,“ útskýrir Rakel.
Rakel er meðal þátttakenda á Hugvísindaþingi sem fram fer dagana 11. og 12. mars.