Vignir Vatnar Stefánsson er nýjasti stórmeistari Íslands í skák; hann er viðmælandi hlaðvarpsins Íþróttavarpið sem er á RÚV.
Þar fer Vignir um víða, ræðir ferilinn, kennarahlutverkið, skákáhrifavalda sem og hugmyndina um hinn hamingjusama skákmanninn.
Hinu frábæra afreki sínu nái Vignir þann 22. mars síðastliðinn; hann náði síðasta áfanga stórmeistaratitilsins í febrúar: En Ttil að verða stórmeistari þarf að ná 2.500 ELO-stigum og sýna svo í þrígang stórmeistaraleik á móti, til að sýna fram á að titillinn sé algjölega verðskuldaður.
Vignir segir að þarna hafi draumur ræst hjá honum.
„Þetta er búinn að vera draumurinn síðan ég var 6 ára. Ég er ennþá að jafna mig á þessu.“
Bætir við:
„Í byrjun 2022 náði ég áfanga í byrjun janúar, og það var bara létt. Það gekk allt upp. Svo mánuði síðar náði ég aftur áfanga þannig að ég hélt að þriðji kæmi bara strax. En svo tók hann ár. Ég var orðinn smá stressaður með síðasta áfangann.“
Vignir byrjaði ungur að iðka skákina; fór hann á sitt fyrsta mót 6 ára gamall, Torgmót Fjölnis. Þar vakti hann athygli.
„Þar var þáverandi formaður Skáksambandsins, Björn Þorfinnsson, sem er reyndar ritstjóri DV í dag. Hann sá mig tefla og sagði:
„Núna fer þessi í skák, hann er ekkert að fara að gera neitt annað þessi!“ og hann tók mig í einkatíma og allt í einu var ég bara… ég var fljótt orðinn mjög efnilegur.“
Vignir er einungis tvítugur, en hefur miklum tíma ævi sinnar í skákflakk um heiminn til að tefla; viðurkennir að það geti orðið ansi einmanalegt.
„Ég var mjög heppinn með það að ég slysaðist inn í mjög gott félagslíf. En ég er oft að ferðast um heiminn og oft einn. Það styrkir mann og byggir karakter en ég ætla ekki að gera það til langs tíma. Ég hef engan áhuga á að búa í ferðatösku með enga fjölskyldu og vera hamingjusamur með eitthvað skákborð á einhverju kaffihúsi í Brasilíu eða eitthvað. Það meikar engan sens fyrir mér.“
Vignir hefur verið duglegur að aðstoða; kennir yngri og óreyndari skákmönnum.
„Ég virkilega reyni mitt allra besta, ég vil virkilega gefa af mér. Við erum alveg skákþjóð en við erum efni í frábæra þjóð í skákinni eins og við vorum árið 1990. Þá vorum við heimsklassa. Mig langar rosalega mikið að það komi upp kynslóð á eftir mér sem verður heimsklassa í skák, eða allavega einn eða tveir sem verða heimsklassa.“ „Það er mikilvægt fyrir mig líka, sem manneskja, að gefa af mér á sviði sem ég get gert það. Ég var alltaf að ferðast til að klára áfangann; síðustu tvö árin er ég búinn að vera út um allt að tefla. Núna verð ég heima í apríl og þá verð ég bara að kenna. Ég þarf að passa mig bara að þeir vinni mig ekki!“ segir hann og hlær.
„Ég ætla að kenna þeim nógu mikið en ég ætla að halda áfram að bæta mig sjálfur. Eftir að ég varð stórmeistari verð ég að passa mig á gegn hverjum ég tapa. Maður heyrir þetta alltaf: „Já, ég vann stórmeistara hérna,“ og ég ætla ekki að vera sá stórmeistari.
Samfélagsmiðlar og vefstreymi spila sífellt stærri rullu í skákheiminum, eins og annars staðar í samfélaginu. Upp hafa sprottið skákáhrifavaldar, skákfólk sem streymir sínum skákum á vefnum og er með milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum. Vignir Vatnar vill horfa nær.
„Það er alltaf verið að reyna að fá mig til að streyma. Mig langar frekar að vera skákáhrifavaldur á Íslandi. Ég hef engan áhuga á að verða frægur, eitthvað stjarnfræðilega frægur. Það er glatað. Ég vil bara að fólk þekki mig smá á Íslandi fyrir skák, það er frábært fyrir mig. Þetta er frábært sem þau [skákáhrifavaldarnir] gera, fyrir skákina, að dæla inn Youtube-vídeóum. Ég held ég stefni ekki í þann pakka.“
„Þú vilt þá frekar vera næsti Jóhann Hjartarson en næsti Magnus Carlsen?“
„Já, þetta er mjög orðað hjá þér. Jóhann fór í lögfræðina, ég geri það sennilega ekki en ég er til í að vera eins og Jóhann upp á það að eiga fjölskyldu og vera hamingjusamur. Hann teflir ennþá og hefur ógeðslega gaman af því. Hann elskar þetta ennþá.“ „Það er æðislegt að horfa á hann, bara fyrir mig. Hann áttar sig ekki á því hvað það gerir mikið fyrir mig að sjá hann svona glaðan í þessu. Hamingjusamur skákmaður. Þeir eru oft ekkert mjög hamingjusamir þessi skákmenn sem eru 16 tíma á dag að gera ekkert annað, orðum það svoleiðis.“