Lið á landsbyggðinni sækja mun fremur í erlenda leikmenn en knattspyrnulið á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim 229 erlendu leikmönnum sem hófu leik í fyrstu umferð léku 136 með liðum á landsbyggðinni.
Karlalið á landsbyggðinni hefur á að skipa 3,2 erlendum leikmönnum að meðaltali en karlalið á höfuðborgarsvæðinu 1,8 leikmönnum. Hjá konunum hafa landsbyggðarlið að meðaltali 2,6 erlenda leikmenn samanborið við 0,9 á höfuðborgarsvæðinu.
Ástæðan fyrir þessu er tiltölulega einföld. Lið á landsbyggðinni hafa úr færri leikmönnum að velja, enda ekki hlaupið að því að fylla 16 leikmanna hóp í fámennu bæjarfélagi. Hvað þá hóp sem er samkeppnishæfur við stærri lið á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur líka reynst liðum á landsbyggðinni erfitt að fá íslenska leikmenn til liðs við sig. Bæði hugnast mörgum leikmönnum ekki að búa úti á landi auk þess sem launakröfur þeirra þykja of háar. Í flestum tilfellum er þess vegna ódýrara að sækja leikmenn til útlanda.
Grindavík og ÍBV eru þau lið í efstu deild karla sem eru með flesta erlenda leikmenn innanborðs þegar flautað var til leiks í fyrstu umferð, eða níu talsins hvort lið. Hjá konunum var Selfoss með flesta erlenda leikmenn, fjóra talsins, og ÍBV og Þór/KA með þrjá hvort. Víða á landsbyggðinni er að finna lið sem eru að uppistöðu skipuð erlendum leikmönnum. Eru þetta lið eins og Snæfell úr Stykkishólmi (13), Víkingur Ólafsvík (8), Vestri (7), Fjarðabyggð (6) og Einherji á Vopnafirði (6).