Það eru Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Rödd unga fólksins, sem hafa snúið bökum saman og verða við stjórn í bænum næstu fjögur árin, ef allt gengur að óskum.
Bæjarfulltrúar nýja meirihlutans undirrituðu í dag málefnasamning um verkefni og samstarf næsta kjörtímabils; nýr forseti bæjarstjórnar verður Ásrún H. Kristinsdóttir, fulltrúi Framsóknar, en þriðja ár kjörtímabilsins tekur Helga Dís Jakobsdóttir, fulltrúi Raddar unga fólksins, við embættinu.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Hjálmar Hallgrímsson, verður formaður bæjarráðs og Fannar Jónasson bæjarstjóri verður endurráðinn, enda ríkir mikil ánægja með störf hans í Grindavík.
Málefnasamningur verður birtur að loknum fyrsta bæjarstjórnarfundi nýrrar bæjarstjórnar, sem verður þriðjudaginn 7. júní næstkomandi.