Mike Fleiss, höfundur raunveruleikaþáttarins The Bachelor, tilkynnti í vikunni að nýr stefnumótaþáttur úr hans smiðju færi í loftið í sumar á sjónvarpsstöðinni ABC.
Þátturinn heitir The Proposal, eða Bónorðið, og fellur það í hlut fyrrum NFL-leikmannsins Jesse Palmer að vera kynnir. Þeir sem hafa fylgst vel með fyrrnefndum Bachelor-þáttum kannast kannski við Jesse, en hann keppti í seríu 5.
The Proposal telur alls tíu þætti og snúast þeir um tíu vonbiðla sem keppa um hylli einnar manneskju, líkt og í The Bachelor, The Bachelorette og fleiri þátta í svipuðum dúr. Bónorðið sker sig úr með þeim þætti að vonbiðlarnir fá ekki að sjá, eða vita nokkurn skapaðan hlut um manneskju sem þeir eru að reyna að heilla.
Líkt og í öðrum stefnumótaþáttum verða ýmsar áskoranir sem vonbiðlarnir þurfa að takast á við, til dæmis svara ýmsum nærgönglum spurningum og reyna að heilla fjölskyldumeðlimi óþekktu manneskjunnar.
Eftir hverja áskorun er einn keppandi sendur heim þar til aðeins tveir standa eftir. Þeir tveir fá þá loksins að hitta huldumanneskjuna og geta þá borið upp rómantískt bónorð að eigin vali, samkvæmt tilkynningu frá ABC.
Lesa má á milli línanna að bónorðið sé valfrjálst, en að það geti einnig aðeins falið í sér boð á stefnumót.
Gonna be fun!!! https://t.co/zTwVFGZd6g
— Mike Fleiss (@fleissmeister) April 24, 2018