Lánakjör Íslendinga á húsnæðislánamarkaði hafa gjörbreyst á örfáum árum. Fyrir hrun voru húsnæðislán heimila veðmál um hvernig annað hvort verðbólga eða gengi krónu myndi þróast, og ofan á það þurftu þau að borga svimandi háa vexti. Í dag eru bestu verðtryggðu vextir undir tvö prósent, verðbólga hefur verið lág árum saman og óverðtryggðir vextir eru lægri en þeir sem stóðu til boða á verðtryggðum lánum árið 2008.
Meginvextir Seðlabanka Íslands, oftast nefndir stýrivextir, hafa lækkað alls um 0,75 prósentustig á síðustu misserum og standa nú í 3,75 prósentum. Þeir eru vissulega afar háir í flestum alþjóðlegum samanburði, enda vextir neikvæðir um þessar mundir í mörgum löndum.
Væntingar greiningaraðila eru að þeir muni halda áfram að lækka í nánustu framtíð og að sú lending sem íslenskt efnahagslíf er að fara í gegnum vegna samdráttar í landsframleiðslu í ár geti verið mýkt með peningastefnunni, og þar með vaxtalækkunum, en leiði ekki til gengisfellingar eða verðbólguskots. Þetta sé mögulegt vegna þess að Ísland standi þrátt fyrir allt vel. Hér er viðskiptaafgangur, eignir erlendis eru umfram skuldir og heimili landsins hafa frekar einbeitt sér að sparnaði en einkaneyslu á síðustu árum.
Haldi stýrivextir áfram að lækka munu húsnæðislánakjör landsmanna halda áfram að batna.
Ítarleg fréttaskýring er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs og á kjarninn.is.