Nú fer hver að verða síðastur að nýta sér ferðagjöf ríkisins en hún gildir út árið. Aðeins tæpur helmingur þeirra sem eiga rétt á gjöfinni góðu hafa þegar nýtt sér hana. Margir nýttu sér hana í sumar á gististöðum landsins og sumir hafa eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar og ætlað að nýta sér hana nú í haust/vetur þegar fjölmargir gististaðir bjóða dúndur tilboð. Kórónuveiran þvælist svolítið fyrir þessa dagana og tilmæli um að fólk haldi sig nú bara heima. En deyjum ekki ráðalaus.
Það eru ekki bara gististaðir sem taka við ferðagjöfinni, hreint ekki. Það gera líka fjölmörg afþreyingarfyrirtæki, veitingastaðir, söfn og skyndibitastaðir. Á heimasíðunni ferðalag.is má sjá lista yfir fyrirtæki sem taka við ferðagjöfinni. Þá er líka hægt að nýta ferðagjöfina á bílaleigum og í innanlandsflugi. Fyrir fólk sem finnst 5000 kr. vera óttarlegt klink er lítið mál að gefa hana áfram. Fyrir þá sem vilja kaupa sér smá frest er hægt að kaupa gjafabréf, en það þarf þá að vera hjá fyrirtæki sem er líklegt til að standa af sér þær efnahagshremmingar sem við blasa í atvinnulífinu.
Neytendavakt man.is hvetur að minnsta kosti fólk til að þiggja þessa gjöf áður en það verður of seint.