Nýjasta bók Ránar Flygenring teiknara og Hjörleifs Hjartarsonar heitir fullu nafni Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins og segir sögu flugunnar Skarphéðins í bundnu máli og myndum. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka.
„Skarphéðinn er forvitin fluga og ólíkt hinum flugunum í Háborginni þyrstir hann í að komast að því hvað leynist fyrir utan borgarmúranna. Þetta er launfyndin og heimspekileg bók fyrir allan aldur, ekki ólíkt fyrstu bókinni okkar Hjörleifs, Fuglar, sem kom út hjá Angústúru í fyrra. Sú bók spratt upp af fyrsta samstarfsverkefni okkar Hjöra, en það var árið 2015 þegar við unnum bæði að lítilli fuglasýningu á byggðasafninu á Dalvík,“ segir Rán.
„Sagan um Skarphéðin Dungal er töluvert ólík öðrum bókum sem ég hef unnið að, sem er að miklu leyti að þakka samstarfi við Birnu Geirfinnsdóttur bókahönnuð. Í upphafi sá ég fyrir mér fínar, flugulega línur en á okkar fyrsta fundi lagði Birna til grafíska nálgun og náið samtal leturs og teikninga. Mér fannst þetta ágæt áskorun og endaði á að vinna með skærum og hníf í pappír – eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Útkoman varð sterkar, grafískar klippimyndir í tveimur litum.“
„Verðlaunatilnefning er ákveðin hvatning til þess að halda áfram, rétt eins og ánægðir lesendur eru líka hvatning.“
Rán segir það mikinn heiður að hafa verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og gleðilegt að fá viðurkenningu fyrir verk sín á þann hátt. „Verðlaunatilnefning er ákveðin hvatning til þess að halda áfram, rétt eins og ánægðir lesendur eru líka hvatning. Hljómar eitthvað klisjulega en þannig er það bara,“ segir Rán sem núna er stödd á Nýja-Sjálandi að njóta sumars, heimsækja tengdafjölskyldu og teikna nýja bók sem kemur út í Þýskalandi á næsta ári. „Ég verð hér fram á vor og sný þá aftur á norðurhvel.“
Hvaða aðrar bækur hefur þú gert? „Fyrsta bókin okkar Finn-Ole Heinrich, Frerk du Zwerg, kom út í Þýskalandi árið 2011 en sú hlaut einmitt Barnabókaverðlaun Þýskalands það ár. Við Finn-Ole höfum gefið út fjórar bækur eftir það. Þar á milli var þriggja bóka sería um Maulinu Hansen en sú fyrsta í seríunni er komin út á íslensku og heitir Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen. Hér á Íslandi hef ég gert áðurnefnda Fugla okkar Hjörleifs, myndasöguna Ógæfu í samstarfi við Hugleik Dagsson og svo teiknað á og í fjölmargar bækur, til að mynda Bernskubrekabækur Ævars vísindamanns og Stellu-seríu Gunnars Helgasonar svo einhverjar séu nefndar.“
Mynd / Sebastian Ziegler