Mannlíf hefur einn fjölmiðla fjallað um spillingu sem virðist ríkja í bæjarstjórn Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og varðar sérstaklega tvennt:
Annars vegar klúður varðandi hina svokölluðu „Milljarðahöll“ sem er knattspyrnuhús sem kostaði fimm milljarða króna en er með of lága lofthæð til að hægt sé að leika þar í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu og þar af leiðandi landsleiki líka.
Hins vegar augljós hagsmunatengsl forseta bæjarstjórnar meirihlutans í Garðabæ, Bjargar Fenger, sem fékk samning frá Garðabæ án almenns útboðs til fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu hennar, Terra – áður Gámaþjónustan.
Garðabæjarlistinn er leiddur af Söru Dögg Svanhildardóttur og hefur hún og félagar hennar í Garðabæjarlistanum ítrekað bent á það sem þau vilja meina að séu óeðlilegir stjórnunarhættir; þar sem keypt þjónusta hefur ítrekað ekki verið boðin út sem skyldi, fyrr en Garðabæjarlistinn kallaði eftir aðgerðum, þegar úttekt á stjórnsýslu staðfesti þá gagnrýni enn frekar:
„Því kom það verulega á óvart þegar lagður var fram samningur til samþykktar um leigu/kaup á færanlegum eingingum frá Terra ehf án útboðs. En slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust eða trúverðugleika að vandað sé til verka þegar farið er með skattfé íbúa sveitarfélagsins,“ segir Sara Dögg og bætir við:
„Við fáum ekki annað séð en að farið sé á svig við lög um opinber innkaup með því að bjóða ekki út leigu og/eða kaup á færanlegum einingum sem rísa eiga í haust sem ungbarnaleikskóli. Svör bæjarstjóra hingað til hafa verið misvísandi um leiðina sem ákveðið var að fara þegar gengið var til samninga við Terra ehf án útboðs.“
Sara Dögg lagði fram eftirfarandi bókun á fundi í bæjarráði í vikunni:
„Framkomin svör eru í hróplegu ósamræmi við bókun meirihlutans frá 6. júlí síðastliðnum, en þar er fullyrt að leiga á „fasteign eins og þeirri sem hér um ræðir“ sé undanskilin gildissviði laga um opinber innkaup. Nú er ljóst að það er rangt, því hér er ekki um að ræða „fasteign“ í skilningi laga heldur lausafé – það er vöru. Lög um opinber innkaup eiga því við og skýr útboðsskylda hvílir á Garðabæ,“ segir Sara Dögg og bætir við:
„Í 3. mgr. 4. gr. laga um opinber innkaup er skýrt kveðið á um þá samninga sem lögin taka til, meðal annars vörusamninga sem hafa að markmiði kaup eða leigu, með eða án kaupréttar. Útilokað er að 39. gr. um samningskaup án útboðsauglýsinga eigi hér við. Garðabæjarlistinn harmar að ekki hafi verið brugðist fyrr við þeirri gríðarlegu vöntun á leikskólaplássi í Garðabæ sem blasað hefur við í langan tíma. Þá teljum við einnig óásættanlegt að farið sé á skjön við lög um opinber innkaup. Markmið með þeim lögum er meðal annars að tryggja jafnræði fyrirtækja og stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni.“
Hún nefnir einnig að „Garðabæjarlistinn kallaði eftir uppbyggingaráætlun síðasta haust og að brugðist yrði strax við skorti á leikskólaplássi. Ef það hefði verið gert þá væri Garðbær ekki að vandræðast með leigu og/eða kaupum á 27 færanlegum húsaeiningum þar sem lög og reglur eru sniðgengin. Við þurfum að standa faglega að verki, sjá íbúaþróun fyrir og vera tilbúin með þjónustuna sem búið er að lofa verði fyrir hendi.“