Rekstur á bifreið getur verið þungur biti í heimilisbókhaldinu. Þess vegna getur borgað sig að skoða rekstrarleigu. Fjölmargar bílaleigur bjóða upp á vetrar- og langtímaleigu á bílum. Þá losna neytendur við fastan kostnað eins og dekkjaskipti, smurningu, tryggingar og bifreiðagjöld.
Samkvæmt heimasíðu FÍB er mánaðarlegur kostnaður 102.225 krónur ef miðað er við bíl sem kostar um 5 milljónir og er ekinn 15.000 km á ári. Eldsneytiskostnaður er ekki inni í dæminu.
Bílaleigurnar bjóða upp á ýmiskonar tilboð og oft er hægt að velja á milli mánaðarleigu, vetrarleigu eða ársleigu. Talsvert mismunandi er eftir bílaleigum hvað langtímaleiga kostar á mánuði og hvað er innifalið en þegar skoðuð eru verð hjá fimm stærstu leigunum er meðalverð á fjölskyldubíl um 78.660 krónur á mánuði. Það er því nokkuð ljóst að það er ódýrara að leigja bíl en að eiga bíl!
SPE