Lögreglan leitaði að skrifborðastól sem hermt var að væri á Miklubraut við Réttarholtsveg. Stóllinn var horfinn á braut þegar laganna verði bar að og hefur ekki fundist.
Ölvaður og hömlulaus maður í austurborginni trylltist þegar lögregla greip inn í málin þar sem hann var til vandræða. Lögreglan ætlaði upphaflega að koma manninum heim en hann brást illa við og hélt áfram óspektum. Dólgurinn var þá settur í handjárn til að tryggja öryggi þeirra sem voru nærri. Hann var í framhaldinu læstur inni í fangaklefa þar til af honum rennur æðið og víman.
Lögreglan handtók útlending sem talið er að dvelji ólöglega í landinu. Hann er grunaður um vörslu fíkniefna. Hann var fangelsaður meðan á rannsókn málsins stendur.
Leigubilstjórar áttu í nokkrum erfiðleikum í nótt. Einn óskaði aðstoðar vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir umbeðinn akstur. Annar lenti í miklum hremmingum þegar farþegi réðst á hann og rændi leigubílstjórann bifreið sinni og ók á brott. Lögreglan brá skjótt við og náði ofbeldismanninum sem var handtekinn, grunaður um rán, akstur undir áhrifum áfengis auk fleiri brota. Bílræninginn var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Leigubílstjórinn leitaði á bráðamóttöku vegna áverka sinna.
Þriðji leigubílstjórinn var svo í vanda í Breiðholti vegna farþega sem var með óspektir. Lögreglan mætti og kom skikk á málin.