Laugardagur 21. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Oft sváfum við bara á garðbekkjum eða undir runna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Einarsson, tónlistarmaður í hljómsveitinni Hjálmum, hefur löngum forðast sviðsljósið. Hann er rólyndur sveitastrákur í grunninn sem hefur glímt við þunglyndi og kvíða frá æsku, lét neysluna ná tökum á sér um tíma en er laus frá slíku og einbeitir sér nú að börnunum sínum, tónlistinni og því að hafa jákvæðar og kærleiksríkar tilfinningar í forgrunni.

 

„Ég var svona þrettán ára þegar ég fann að þetta var það sem ég vildi gera. Að tónlistin þyrfti alltaf að vera órjúfanlegur hluti af mínu lífi og ég hef haft hana að atvinnu frá því 2003 eða þar um bil,“ segir Þorsteinn Einarsson, tónlistarmaður, oft kenndur við hljómsveitina Hjálma sem nýverið sendi frá sér hljómplötuna Allt er eitt og hefur hlotið fínar viðtökur.

Þrátt fyrir að hafa átt farsælan feril innan dægurlagatónlistar í þetta langan tíma hefur Þorsteinn aldrei sóst eftir frægðinni sem oftar en ekki er hennar fylgifiskur. Þvert á móti hefur hann frekar kosið að forðast sviðsljós fjölmiðlana og eiga sitt einkalíf þar sem þó hafa skipst á skin og skúrir eins og gengur.

„Ég er alinn upp í Hallormasstaðarskógi og þessi nálægð við náttúruna hefur eflaust átt sinn þátt í að móta hvaða mann ég hef að geyma,“ segir Þorsteinn og það kemur eilítið blik í augun þegar hann hugsar til æskuslóðanna. „Þegar ég var sextán ára flutti ég til Reykjavíkur með mömmu eftir að foreldrar mínir skildu árið 1994. Ég á þrjú alsystkini en þau eru öll umtalsvert eldri, það er bara eitt og aftur eitt ár á milli þeirra þriggja en svo kom ég tólf árum seinna. Pabbi giftist aftur og það er nánast jafnlangt á milli mín og þeirra í hina áttina, þannig að ég ólst upp svona dálítið eins og einbirni. Var einn þarna mitt á milli sem var óneitanlega dálítið sérstakt.“

Þorsteinn segir að þrátt fyrir aldursmuninn sé hann í góðu sambandi við systkini sín og að á meðal þeirra yngri sé tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti sem hann hafi unnið mikið með í seinni tíð. „Ég var líka oft fyrir austan, einkum á sumrin enda alltaf gott að koma af malbikinu í faðm náttúrunnar, auk þess lít ég alltaf á að ég sé þaðan því þessi fyrstu ár eru svo mótandi.“

Datt inn í heim neyslunnar

- Auglýsing -

Það var fyrir austan sem Þorsteinn heillaðist af tónlistinni og hann segir að eftir það hafi ekki komið annað til greina. „Ég fór í gítarnám ekki síst vegna þess að tónlistin veitti mér svo góða líðan. Mér leið alltaf best þegar ég var að spila og ég fann sterklega að þetta vildi ég gera. Það merkilega er að þessi sterka tilfinning hefur aldrei farið. Það lifnar alltaf yfir mér þegar ég er að fást við tónlist og ég á ekki von á því að það breytist.“

Þegar Þorsteinn flutti til Reykjavíkur þá var hann á þeim aldri að hefja nám í menntaskóla en hann segir að slíkt hafi ekki átt fyrir sér að liggja. „Ég reyndi að fara í menntó en það gekk ekki. Var í sama tíma í FÍH og það gekk aðeins skárr en svo var dáldið mikið djamm og rugl á mér á þessum tíma. Ég datt aðeins inn í heim neyslunnar, var að drekka og jafnvel dópa og það stundum efni á borð við spítt en var þó ekki í dagneyslu. En þetta rugl tekur allt frá manni og ég held að ég hafi gert mér grein fyrir því að einhverju leyti.

Þannig að þegar ég var átján ára þá flutti ég til Svíþjóðar til þess að fara þar í skóla. Þetta var svona tónlistarmenntaskóli, mjög framsækinn og spennandi, eitthvað sem var langt frá öllu sem var til hérna heima á þessum tíma. Eitthvað sem var hugsað fyrir krakka sem passa ekki endilega í kassana sem kerfið hefur að bjóða.“

- Auglýsing -
Aðspurður hvort að neyslan hafi komið til baka með velgegninni í tónlistinni þá tekur Þorsteinn ekki fyrir það. „Ég fór svona aðeins að fá mér aftur en það var fyrst og fremst þegar við vorum að spila. Þetta var aðallega vín og gras og ég hafði það fyrir reglu að þetta kæmi aldrei inn á heimilið.“

Þorsteinn segir að æskuvinur hans Kristinn Snær Agnarsson trommuleikari hafi flust til Svíðþjóðar ásamt móður sinni og að það hafi komið sér vel. „Ég eiginlega elti þau og fékk að búa hjá þeim fyrst um sinn þangað til ég var kominn með íbúð. Fyrsti bærinn sem ég bjó í var Gävle, sem mér var sagt að hefði áður kallast Gevalia og geymir einmitt samnefnda kaffiverksmiðju. Ég bjó meira að segja í nágrenni við Gevalia-kaffibrennsluna á þessum tíma og þar var kaffibrennslulyktin viðvarandi alla daga, alltaf. Það hafði sinn sjarma og vandist eins og annað.

Þarna fór ég að leigja stúdentaíbúðir með bekkjarfélögum og kynnist fljótlega vinum mínum sem áttu svo eftir að starfa með okkur hérna heima í tónlistinni seinni meir. Frábæru fólki sem ég er í sambandi við enn í dag.“

Rekinn úr skólanum

Þorsteinn segir að auk þess að sækja skólann hafi hann ásamt vinum sínum líka verið að spila á minni stöðum bæjarins og að það hafi verið góð reynsla. „Þetta var hálfútópísk reynsla fyrir mig að vera í þessum skóla því þarna var sérhæfð jazztónlistarbraut sem var með frábæra kennara og allt til alls. Ég ætlaði mér að verða jazzgítarleikari og lærði margt þarna.“

Eftir að hafa verið kominn í neyslu og vesen með sjálfan sig hérna heima fannst Þorsteini gott að koma til Svíþjóðar og einbeita sér að tónlistinni. Hann segir að fyrst um sinn hafi gengið vel að halda sig frá öllu slíku þarna úti. „Lengi vel þá gekk það ljómandi vel en svo rataði ég inn í neyslu aftur og tók hana þá með talsverðum trukki illu heilli. Mér meira að segja tókst að láta reka mig úr skólanum stuttu áður en ég lauk námi. Það var einfaldlega vegna neyslu og fylgifiska hennar sem kom mér í þá stöðu. Ég mætti illa og svo þegar ég mætti þá var ég kannski einfaldlega ekki í lagi. Ég mundi svo sannarlega gera þetta öðruvísi ef ég fengi að gera þetta núna,“ segir Þorsteinn og hlær við tilhugsunina.

„Um sumarið, eftir að mér tókst að láta reka mig úr skólanum, fór ég með góðum vini mínum að ferðast um Evrópu og spila á götunni.“

Hann bætir við að í kjölfarið hafi komið afskaplega ævintýralegur tími í hans lífi. „Um sumarið, eftir að mér tókst að láta reka mig úr skólanum, fór ég með góðum vini mínum að ferðast um Evrópu og spila á götunni. Fórum tveir að „böska“ eins og að er kallað. Þessi vinur minn er því miður fallinn frá en hann hét Andreas og var alltaf kallaður Gúrkan. Það festist við hann vegna þess að hann var dálítið sérstakur í útliti, var langur og mjór með hárið allt rakað að undanskyldu dread-lokkum sem spruttu upp úr miðju höfðinu og minntu á sprota á agúrku. Þessi strákur var alveg einstakur. Hann var gríðarlega hæfileikaríkur tónlistarmaður; gítarsnillingur, lagasmiður og söngvari, það lék allt í höndunum á honum. Að auki þá var hann líka einstaklega gefandi og yndisleg manneskja. Svona gaur sem var alltaf gott að hafa við hlið sér, ég sakna hans mikið.“

Svaf á garðbekkjum

Þorsteinn segir að þeir félagar hafi um þetta sumar ferðast um Evrópu þvera og endilanga og lent í allskyns ævintýrum. „Við vorum misvel efnaðir á þessu ferðalagi þannig að oft sváfum við bara á garðbekkjum eða undir runna og venjulega var það allt í lagi. Við vorum að stefna suður eftir álfunni og ætluðum okkur að halda áfram alla leið til Afríku. Vorum komnir til Gíbraltar og frekar svona þreyttir og slæpptir og gerðum þau mistök að leggja okkur aðeins á ströndinni. Það var glampandi sól og hiti og við ætluðum bara rétt aðeins að pústa en sofnuðum.

Þegar við vöknuðum vorum við komnir með alveg heiftarlegan sólsting sem getur verið mjög hættulegt. Ég slapp samt betur, brann þó nokkuð illa og var aðeins ringlaður en Andreas varð alveg fárveikur svo ekki sé meira sagt. Þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að reyna að koma okkur til baka. Við hefðum kannski átt að koma okkur á næsta sjúkrahús en gerðum það samt ekki heldur tókum stefnuna á London. Þar átti ég vini og treysti á að þeir gætu svona eitthvað hjálpað okkur. Við vorum þó ekki komnir nema til Barcelona þegar við vorum rændir og þá fóru málin að flækjast. Okkur tókst þó að komast til Parísar og þar fékk ég útgefið bráðabirgðavegabréf og þaðan gátum við loks komið okkur til London en Andreas meira og minna veikur allan tímann. Þegar við komum til London gekk líka seint og illa að finna vini mína því þetta var fyrir daga Internetsins en það hafðist þó að endingu með því að leita á réttu stöðunum.“

Þorsteinn segir að þeir hafi fengið hjálp frá vinum hans í London en hann hafi þó fljótlega ákveðið að fara heim til Íslands. „Andreas varð eftir hjá þeim, fékk sér vinnu í London og var þar í svolítinn tíma. Talsvert seinna hafði hann svo samband við mig til þess að athuga hvort að ég vildi ekki koma með sér til Afríku til þess að klára ferðina. Á þeim tíma var ég kominn með vinnu á leikskólanum Sælukoti sem er rekinn af Ananda Marga, líklega var þetta 2003, og kunni vel við mig þannig að ég ákvað að sleppa ferðinni. En Andreas fór til Afríku, ferðaðist þar um nokkuð langan tíma þar til hann skyndilega veiktist og lést. Hann var ekki nema 28 ára og líklega fékk hann einhverja baktaríusýkingu sem hafði þessar ömurlegu afleiðingar.“

Ætlaði að verða munkur

Þorsteinn segir að þegar hann hafi verið rekinn úr skólanum hafi orðið ákveðin vitunadarvakning hjá honum gagnvart neyslunni. „Við vorum ekki í neyslu þegar við vorum að „böska“ um Evrópu, fengum okkur kannski bjór en það var ekkert meira en það. Eftir að ég kom heim þá tók ég svo upp hreinlifnað og það hentaði mér því vel að vinna á Sælukoti. Það fylgir því ákveðin menning að vinna þar, þarna er grænmetisfæði og hugleiðsla höfð í öndvegi og ég var alvarlega að íhuga að gerast munkur innan þessarar hreyfingar. Var búinn að vera að spila með einhverjum böndum úti í Svíþjóð og fannst ég vera búinn að vera að harka lengi án árangurs þannig að það væri best að fara bara í munkinn.

En á sama tíma þá var ég búinn að kynnast gaurum í Keflavík í gegnum vin minn Kristin Snæ, sem ég sé núna að hefur reynst örlagavaldur í mínu lífi, sá hinn sami og ég flutti með til Svíþjóðar. Það má í raun segja að það hafi verið Kristni Snæ að þakka að Hjálmar urðu til vegna þess að þetta voru strákar sem hann svona dró saman til þess að fara að leika sér í tónlist. Við fórum að spila saman og allt í einu vorum við bara byrjaðir að taka upp plötu. Það var fyrsta plata Hjálma, hún kom út 2004 og gekk nægilega vel til þess að við höfðum heilmikið að gera við að spila. Okkur fannst auðvitað að við værum búnir að sigra heiminn,“ segir Þorsteinn og brosir út í annað.

„Þarna var tónlistin aftur orðin að leiðandi afli í mínu lífi og hefur verið það alla daga síðan. Á þessum tíma kynntist ég líka Sigríði Eyþórsdóttur og við fórum að eignast börn og þar með var munkahugmyndin endanlega út úr myndinni,“ segir Þorsteinn hlæjandi og bætir við að lífið hafi einfaldlega tekið hann í hina áttina. „Ég kynntist Sigríði í árslok 2004 og við fórum að vera saman í upphafi næsta árs. Við eignuðumst tvö yndisleg börn og það var nóg að gera í tónlistinni og lífið bara ljómandi gott.“

Missti tökin

Hjálmar hafa verið starfandi alla tíð síðan að þessir strákar kynntust í Keflavík á sínum tíma og Þorsteinn segir að enn séu þrír í bandinu sem hafi verið með alveg frá byrjun. „Auk mín eru það Guðmundur Kristinn Jónsson sem er alltaf kallaður Kiddi og Sigurður Guðmundsson. Valdi Kolli og Helgi Svavar eru svo reyndar búnir að vera með síðan 2007 og við þar með óbreytt band síðan þá.“

Aðspurður um hvort að neyslan hafi komið til baka með velgegninni í tónlistinni þá tekur Þorsteinn ekki fyrir það. „Ég fór svona aðeins að fá mér aftur en það var fyrst og fremst þegar við vorum að spila. Þetta var aðallega vín og gras og ég hafði það fyrir reglu að þetta kæmi aldrei inn á heimilið. En svo er jókst þetta hægt og bítandi með tímanum og þá færast mörkin. Þetta er eitthvað sem tekur lífið yfir fyrr eða síðar. Það endaði auðvitað með því að það var allt komið í hnút í sambandinu og ég verð að játa að það var að stórum hluta til vegna minnar neyslu.

„Það endaði auðvitað með því að það var allt komið í hnút í sambandinu og ég verð að játa að það var að stórum hluta til vegna minnar neyslu.“

Það endaði með því að við skildum árið 2013 og það var erfiður tími. Þá var ég líka bara mjög týndur. Hafði á þessum tíma byrjað að spila með Ásgeiri Trausta, bróður mínum, og fljótlega fórum við að ferðast og vorum að því mjög stíft í nokkur ár. Ég áttaði mig reyndar ekki á því hvað Ásgeir Trausti er mikill snillingur fyrr en hann kom sér sjálfur í samband við Kidda, vin minn, og byrjaði að taka upp. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur og það er gaman að hann skyldi svona koma inn í mitt vinamengi.

En á þessum tíma þegar ég fór að túra með Ásgeiri Trausta þá missti ég hreinlega alveg tökin og það endaði með því að öll mörk voru orðin útmáð og ógreinileg. Þá gat verið erfitt að halda sér hreinum þegar maður kom heim. En sem betur fer þá endaði það með því að ég áttaði mig á því að ég var búinn að missa stjórnina á þessu og ákvað að gera eitthvað í málinu. Fór í meðferð hjá SÁÁ 2016 og hef verið laus við þetta síðan.“

Þorsteinn segir að á þeim tíma sem hann var að túra með Ásgeiri Trausta og enn í neyslu hafi honum þó tekist að halda ágætu sambandi við börnin. „Ég var alltaf með þau þegar ég var heima og var í sambandi við þau, þó svo ég hafi ekki verið neinn fyrirmyndarfaðir. Alls ekki, en það hefði getað farið verr. Auðvitað sé ég eftir þessum tíma og hefði viljað gera hlutina þannig að það hefði verið best fyrir alla. En á sama tíma þá veit ég að það er ekki til neins að sjá eftir hlutunum en það má þó læra af þeim. Annað getur bara skemmt fyrir manni núlíðandi stund og framtíðina.“

Bara on- og off-takki

Þorsteinn tekur og heldur áfram. „Þunglyndi hefur fylgt mér allt frá unglingsárunum. Vonleysi og aðgerðarleysi þar sem mig langar ekki á fætur og þessu fylgir líka kvíði þar sem allt verður erfitt og mikið mál. Bara það að fara út í búð getur verið skelfileg tilhugsun. Þetta er eitthvað sem ég er að læra á alla daga og það gengur alltaf betur og betur. Þetta er eitthvað sem byrjaði að láta á sér kræla snemma, löngu áður en ég byrjaði að fikta við einhverja neyslu til að mynda. Þannig að það er í sjálfu sér ekki hægt að rekja þetta til þess en auðvitað hjálpar neyslan aldrei, heldur þvert á móti.

„Þunglyndi hefur fylgt mér allt frá unglingsárunum. Vonleysi og aðgerðarleysi þar sem mig langar ekki á fætur og þessu fylgir líka kvíði … Bara það að fara út í búð getur verið skelfileg tilhugsun.“

En mér finnst vera grundvallaratriði að góð andleg iðkun, hugleiðsla og annað slíkt, hjálpar alveg gríðarlega. Að ná tengingu við einhverjar jákvæðar og kærleiksríkar tilfinningar. Reyna að velja þær tilfinningar og hafa þær í forgrunni.

Þorsteinn segir að fyrir honum sé mikilvægt að njóta stundarinnar og nefnir sem dæmi að það sé honum mikilvægt að njóta þess núna að Hjálmar hafi verið að koma með sína fyrstu eiginlegu breiðskífu, undir titlinum Allt er eitt, síðan 2011.

Hvað lífsstílinn varðar þá er ég í hið minnsta búinn að átta mig á því að ég hef ekki áhuga á því að fara í nokkurs konar neyslu, að taka einhver hugbreytandi efni eða eitthvað slíkt. Þar hef ég ekki stjórnina og ég læt hana ekki af hendi. Það eru nefnilega bara tvær stillingar þegar kemur að neyslunni hjá mér: Það er on og off. Það eru engar fíniseringar, enginn tóntakki. Þannig að mér líður best að hafa þetta bara off og stefni að því að hafa þetta þannig.

Það hefur klárlega hjálpað mér gagnvart þunglyndinu og alveg sérstaklega mikið gagnvart kvíðanum. Ég er miklu betur í stakk búinn til þess að takast á við hlutina. Maður er nógu ruglaður fyrir til þess að maður sé ekki að auka á það,“ segir Þorsteinn og hlær.

Hann segir að fyrir sér sé mikilvægt að njóta stundarinnar og nefnir sem dæmi að það sé sér mikilvægt að njóta þess núna að Hjálmar hafi verið að koma með sína fyrstu eiginlegu breiðskífu, undir titlinum Allt er eitt, síðan 2011. „Á þessum árum höfum við verið að taka upp eitt lag í einu og senda frá okkur lög sem hafa komið á Spotify. Þannig að þessi plata samanstendur af nokkrum slíkum ásamt nýlega uppteknu efni. Við erum mjög ánægðir með plötuna og finnst að lögin njóti góðs af því að við höfum gefið okkur tíma í að vinna þau alla leið. Þarna er ekkert lag til uppfyllingar heldur aðeins lög sem við höfum gefið okkur tíma til að klára. Það er góð tilfinning sem er gaman að upplifa.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -