Óhugnalegum skilaboðum var komið fyrir á glugga í húsi í Fellahverfinu: „Farðu til fjandans helvítis útlendingaskíturinn þinn.“ Skilaboðin eru bakvið verslunina Mini Market, þar sem Gamla bakaríið var áður til húsa.
Í Facebook-hópnum Íbúasamtökin betra Breiðholt birtist í gær mynd af glugganum sem um ræðir. „Hvað er í gangi?“ spyr íbúinn sem deildi myndinni og í athugasemdunum furðar fólk sig á þessu sömuleiðis. „Þetta er bara bilun,“ segir til dæmis einn íbúi í athugasemd við myndina.
DV fjallaði um málið í gær sem varð til þess að listakonan Melanie Ubaldo hafði samband við DV og úskýrði listagjörningin.
Fékk að heyra þetta þegar hún ólst upp
Skilaboðin eru í raun ádeila, Melanie ólst upp í Fellahverfinu og fékk iðulega að heyra skilaboð sem þessi þegar hún ólst þar upp.
„Um leið og eitthvað sem gerist í einrúmi – eins og við vitum alveg að svona rasískar orðræður eiga sér stað – er varpað svona hátt í almenningsrými þá hugsar fólk „vá hvað þetta er ljótt“. Ég er að endurheimta þetta og sjá til hvort það verði einhvers konar losun sem gerist fyrir mína parta,“ segir hún í samtali við blaðamann DV.
Skilaboðin á gluggunum eru hluti af listasýningu á vegum Melanie sem er í húsinu sem málað var á. „Þetta er partur af einkasýningunni minni hjá Listaháskólanum. Allir sem eru í útskriftarárgangnum í mínum bekk eru að gera svona einkasýningar. Þetta er partur af sýningunni minni, það er líka sýning inni en ég nota gluggana til að færa sýninguna lengra inn í hverfið,“ segir hún.
Sýningin opnaði síðastliðinn laugardag og er opin fram á föstudag. Hún er opin 12-15 alla daga en textaverkið á gluggunum er auðvitað sjáanlegt utan opnunartímans.