Laugardagur 26. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

„Ógeðslega heimskuleg ráðstöfun á almannafé“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég myndi aldrei reka heimilið mitt svona,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, um þann veruleika að rándýr rými á bráðamóttöku séu yfirfull á meðan önnur rými standi tóm vegna sparnaðar. Hættuástand er daglegur veruleiki á Landspítalanum, segja læknar, og formaður ÖBÍ segir fólk kvíðið vegna málsins.

Helga Vala Helgadóttir

„Það kostar hið opinbera 250 þúsund krónur að hýsa sjúkling í sólarhring á bráðamóttöku. Á öðrum „hefðbundnum“ deildum kostar það 70 þúsund og 40 þúsund á hjúkrunarheimilunum. Þetta er galið reikningsdæmi,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis. „Ég er enginn stærðfræðingur en ég skil þetta. Þetta fer allt úr sama vasanum og er ógeðslega heimskuleg ráðstöfun á almannafé. Ég myndi aldrei reka heimilið mitt svona.“

Neyðarástand ríkir á bráðamóttöku Landspítalans og stórslys í aðsigi, að sögn Más Kristjánssonar, yfirlæknis smitsjúkdómalækninga á spítalanum. Fjöldi innliggjandi sjúklinga hefur þrefaldast á tveimur árum og „undir þessum aðstæðum skapast ófaglegar aðstæður, heilbrigðisstarfsfólki verður á og sjúklingar gjalda fyrir það,“ sagði Már í samtali við Læknablaðið.

Félag sjúkrahúslækna og Félag almennra lækna boðuðu til fundar á miðvikudag þar sem þau ályktuðu m.a. að hættuástand væri fyrir löngu daglegur veruleiki á deildum spítalans. „Fjöldi bráðveikra einstaklinga er jafnvel dögum saman í óviðunandi aðstæðum á stofu með fjölda annarra og á göngum spítalans. Ástand þetta er fullkomlega óboðlegt frá öllum hliðum séð og hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggi sjúklinga, spillir möguleikum á eðlilegri faglegri þjónustu starfsfólks og truflar skilvirkni starfseminnar,“ segir í tilkynningunni.

Heilbrigðisstarfsfólk á harðahlaupum

„Við þurfum að gera eitthvað núna,“ segir Helga Vala, sem hefur boðað til þriggja nefndarfunda í næstu viku með fulltrúum Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana, landlækni og fleirum. Hún segir ástandið ekki einskorðast við spítalann; þegar heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni fái ekki nauðsynlegt fjármagn, dragi þær úr þjónustu, sem bitnar á endanum á Landspítalanum.

„Þetta er ekki bara það að þú ert að vinna dagvakt, færð smápásu og ferð svo aftur á næturvakt, heldur þarftu líka að hlaupa hraðar.“

- Auglýsing -

Í mörg ár hefur verið rætt um fráflæðisvanda á spítalanum, þ.e. að sjúklingar liggi inni af því að það er ekki hægt að útskrifa þá annað. Helga Vala segir vandann þó ekki snúast um pláss; forvitnilegt væri að vita hvað gerðist ef stjórnvöld tilkynntu að þau væru reiðubúin til að koma til móts við hjúkrunarfræðinga varðandi vaktaálag. „Þetta er ekki bara það að þú ert að vinna dagvakt, færð smápásu og ferð svo aftur á næturvakt, heldur þarftu líka að hlaupa hraðar. Við gerðum þessar kröfur til þessara stétta í kringum hrunið þegar við vorum að reyna að bjarga öllu en það hefur ekkert breyst,“ segir hún. Leysa mætti hluta vandans með því að veita fjármagni í að greiða laun og opna rými sem hefur verið lokað vegna sparnaðar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

Pólitíkin ekki samstiga þjóðinni

„Þetta veldur náttúrlega kvíða hjá fólki og er ekki til að skapa traust,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, en innan vébanda bandalagsins eru fjölmörg sjúklingasamtök. Hún segir fólk hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála, ekki síst því að álagið sé orðið svo mikið að fólk sé sent heim til að deyja. Hún segir málið snúast um forgangsröðun. „Ég held að það sé vilji almennings og okkar sem greiðum skatta að heilbrigðiskerfið sé gott og að ef við þurfum á því að halda þá fáum við bestu mögulegu þjónustu. Ég held að pólítíkin tali ekki alveg í sömu átt … að aðgerðirnar séu ekki í takt við vilja landsmanna.“

- Auglýsing -

Heilsugæslan betur stödd en Landspítalinn

„Það er alveg samkomulag okkar í milli, heilsugæslunnar og Landspítalans, að við reynum að beina þeim sem eiga heima á heilsugæslunni þangað,“ segir Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir átak hafa orðið til þess að 20 til 40 manns á dag leiti nú til heilsugæslunnar sem leituðu áður á bráðamóttökuna.

Óskar Sesar Reykdalsson

Óskar segir heilsugæsluna og læknavaktina telja samtals um 20 einingar og augljóst að það muni hana minna um að taka við 20 í viðbót, einn á hverja stöð, frekar en að fólk fari á spítalann.

En hversu miklu getur heilsugæslan bætt við?

„Auðvitað er það hjá okkur eins og annars staðar að fólk er á fullu og álagið hefur aukist mikið. En það er verið að styrkja heilsugæsluna og fjármagnið er meira en það var,“ svarar Óskar.

Hvað varðar tillögur til úrbóta segir hann nokkrar góðar komnar fram en augljóslega vanti meira fjármagn í kerfið. „Og miðað við að við notum minna af okkar peningum í heilbrigðisþjónustuna en nágrannaþjóðirnar væri ekkert skrýtið að það væri bætt í.“

Óskar segir að einn þáttur gæti verið að efla heimaþjónustuna. „Fólk á alla vega ekki að vera á bráðamóttökunni,“ segir hann og segir rannsóknir sýna að sjúklingum sé best borgið þegar þeir komast fljótt og örugglega undir hendur viðeigandi sérfræðinga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -