Föstudagur 15. nóvember, 2024
-2 C
Reykjavik

Ögmundur Jónasson: „Ég sagði af mér til að bjarga stjórninni – reyndist mér erfið ákvörðun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er mín sýn á sögu stjórnmála og félagsmála síðustu rúma fjóra áratugina,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, um sjálfsævisögu sína, Rauða þráðinn, sem kemur út í janúar. „Persónusaga mín er þarna einhvers staðar líka en þó aðeins að því marki sem hún fléttast inn í afskipti mín af félagsmálum og pólitík frá því ég steig inn á þann vettvang undir lok áttunda áratugarins. Þannig að þetta fer að teygja sig í hálfa öld. Ég segi í upphafi bókar frá því úr hverju ég er gerður; hvað það er sem býr til lífsþráðinn hjá mér – sem er náttúrlega rauður á litinn. Ég fylgi þessum þræði síðan og það segja mér þeir sem lesið hafa bókina, sem að vísu eru ekki margir enn því offisíalt kemur hún ekki út fyrr en 1. janúar, að samfellan í þræðinum sé augljós frá upphafi og fram á þennan dag. Það er nú eiginlega það sem mér finnst skipta mestu máli að vera sjálfum sér samkvæmur en þó tilbúinn að laga sig að breyttum aðstæðum.“

Það vildi ég að sjálfsögðu í öðrum köflum líka en þarna vildi ég vanda sérstaklega til því margt hefur verið missagt um Icesave sem þurfti að leiðrétta.

Ögmundur segir að bókin sé búin að malla lengi sem óljós áform. „Ég skrifaði hana nánast í einum rykk á árinu sem leið. Tvennt tók tíma. Í fyrsta lagi að fara rækilega í saumana á heimildum fyrir þá kafla þar sem ég vildi gerast sagnfræðingur. Það á sérstaklega við um Icesave- deiluna. Þar vildi ég vera eins nákvæmur og kostur er. Það vildi ég að sjálfsögðu í öðrum köflum líka en þarna vildi ég vanda sérstaklega til því margt hefur verið missagt um Icesave sem þurfti að leiðrétta. Hitt sem tók tíma var að finna myndefni. En það tókst með hjálp góðra manna.“

Ögmundur Jónasson
BSRB-ganga.

 

Villikettirnir

Ögmundur er spurður hvað standi upp úr á ferli hans.
„Þegar ég var í Sjónvarpinu, formaður starfsmannafélagsins þar, hengdum við upp skilti sem á stóð að fleiri væru menn en yfirmenn en að stundum þyrfti að minna á það. Það síðastnefnda, um áminninguna, var í sviga á eftir. Ég birti mynd af þessu skilti. En þarna var sú herhvöt sem ég hef alla tíð látið stjórnast af. Það sem stendur upp úr er að ég skuli ekki hafa gleymt þessari grundvallarafstöðu til samferðamanna minna og samfélagsins að enginn skuli öðrum ofar settur. Um hefðbundnar hæðir og lægðir þá stendur upp úr á minni pólitísku vegferð hve margbreytileg hún hefur verið, allt frá Sigtúnshópnum, verkfallsátökum á níunda áratugnum og svo náttúrlega pólitískum slagsmálum í gegnum tíðina.“

Erfiðust eru átök við vini og samherja.

Hvað var erfiðast?
„Erfiðust eru átök við vini og samherja. Á því leikur enginn vafi.“

- Auglýsing -

Þegar Ögmundur er spurður hvað hafi einkennt hann sem stjórnmálamann segist hann vona að mönnum finnist hann hafa verið samkvæmur sjálfum sér; sagt það sama fyrir og eftir kosningar.“

Talið berst að Steingrími J. og deilunum innan VG.
„Orðatiltækið að vík verði milli vina hygg ég að hafi átt þarna fullkomlega við. Og þessi vík varð meira að segja djúp og illfær yfir. Hvað síðar verður veit ég ekki en á síðari hluta kjörtímabilsins 2009 til 2013 höfðu komið upp ágreiningsmál, ekki bara á milli mín og Steingríms og þeirra sem fylgdu honum að málum heldur einnig annarra félaga okkar. Þannig að þetta urðu átök sem margir komu að og fyrir vikið urðu margir sárir áður en yfir lauk.“

Svo voru það villikettirnir.

- Auglýsing -

„Það var Jóhanna Sigurðardóttir sem uppnefndi okkur á þennan hátt en bjó þar með til andstæðuna sem einnig kom úr dýraríkinu, nefnilega sauðkindina. Hinn pólitíski sauður er skelfilegt fyrirbæri. Köttum smalar þú ekki svo glatt og það var áhyggjuefni Jóhönnu en sauðirnir rekast vel í rétt. Í því er mikil hætta fólgin en það er að gera þátttakendur í stjórnmálum að gagnrýnislausri hjörð. Það var alltaf látið sem svo að villikettirnir í stjórnarliðinu – þau sem höfðu uppi gagnrýni – væru fá. Reyndin var sú að í grasrót stjórnmálanna vorum við mörg og sennilega í meirihluta þótt inni í flokksstofnunum værum við færri.“

Ég sagði af mér til að bjarga stjórninni.

Svo sagði Ögmundur af sér sem heilbrigðisráðherra.

„Ég sagði af mér til að bjarga stjórninni. Jóhanna sagði stjórnina fallna nema við töluðum einum rómi í Icesave. Það vildi ég ekki gera. Hvorki láta af sannfæringu minni né fella stjórnina. Þess vegna sagði ég af mér.“

Var erfitt að hætta?
„Fyrst í stað reyndist mér það erfið ákvörðun. En ég vissi innst inni að ég átti að hætta á þeim vettvangi þar sem ég hafði haldið mig í rúm tuttugu ár, það er Alþingi. En ég er ekkert hættur, hef verið á fullu í margs konar málum, innanlands og utan, og horfi glaðbeittur til framtíðarinnar.“

Hvað með skoðun ráðherrans fyrrverandi á forsætisráðherranum?
„Ég gagnrýni Katrínu fyrir að kúvenda í utanríkismálum og gerast of fylgispök við markaðshyggju Evrópusambandsins.“

Vinstri menn þurfa að finna rætur sínar og verða ekki viðskila við þær.

Hvað með VG? Er flokkurinn kominn út af í stefnunni? Ekki svo grænn og ekki svo til vinstri?
„Tvímælalaust. Vinstri menn þurfa að finna rætur sínar og verða ekki viðskila við þær. Það má ekki henda að VG, Vinstrihreyfingin grænt framboð, endi uppi sem HF, Hreyfingin framboð.“

Hvað fannst Ögmundi um sósíalista?
„Ásetningurinn er góður en utanríkispólitíkina vantar.“

Árið 2021 er senn á enda. Hvað segir Ögmundur um áramót?
„Komandi ár verður betra en það sem nú er að líða. Ég hef trú á því. Ef við sem viljum veg hins rauða og græna í stjórnmálum sem mestan leggjum okkur fram þá mun landið rísa. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf alltaf gerendur.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -