Um kl. 9.45 sunnudaginn 26. janúar sl. stóð Scott Daehlin fyrir utan kirkju í Calabasas í Kaliforníu. Það var þungskýjað en hann gat heyrt þyrlu fljúga yfir. Daehlin hafði búið á svæðinu í 57 ár og vissi að handan við skýjaþokuna lágu varasamar hæðir.
„Oh nei,“ sagði hann við sjálfan sig. „Hún flýgur of lágt.“
Hann heyrð skell og svo ekki meir. Daehlin hringdi í 911.
Þegar lögregla og aðrir viðbragðsaðilar mættu á svæðið gátu þeir ekkert gert. Þyrlan var alelda. Það fékkst staðfest hjá þyrluleigunni hverjir voru um borð. Átta liðsmenn „Team Mamba“ á leið á körfuboltamót, auk flugmannsins.
Lögreglustjóranum á svæðinu gafst ekki tími til að flytja fjölskyldunum fregnirnar; það var slúðurmiðillinn TMZ sem var fyrstur með fréttirnar: Kobe Bryant var dáinn. Þegar komið var aftur á lögreglustöðina biðu þar örvæntingafullir ættingjar sem óttuðust það versta.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri samantekt New York Times um atburðaráðs þessa örlagaríka morguns.
Á sama tíma og þyrlan, sem flutti auk Bryant dóttur hans Giönnu og tvær aðrar ungar stúlkur, hrapaði og brann biðu aðrir sem höfðu átt bókað þyrluflug. Margar ferðir höfðu verið felldar niður vegna óhagstæðra veðurskilyrða.
Kvöldið áður spiluðu Los Angeles Lakers, liðið hans Kobe, á móti Philadelphia 76ers. Á skóm LeBron James stóð „Mamba 4 life“. Ástæðan: það var viðbúið að í leiknum myndi hann fara fram úr Bryant í heildarstigafjölda í NBA deildinni. Sem hann og gerði. Af því tilefni tísti Bryant, í hinsta sinn: „Þú heldur áfram að þróa leikinn áfram @KingJames. Þú átt alla mína virðingu, bróðir.“
Daginn eftir sótti Bryant kirkju ásamt fjölskyldu sinni. Kl. 8.45 sást til goðsagnarinnar í bifreið á leiðinni á flugvöllinn. Hann var að gantast við einhvern í framsætinu. Líklega Giönnu.
Ítarlega umfjöllun má finna á vef New York Times.