Gunnar nokkur segir frá óhugnalegu atviki í Keflavík árið 2010 en þá keyrði hann leigubíl. Söguna má finna í Facebook hópnum „Sannar íslenskar draugasögur“ en þar deilir landinn sinni reynslu á því sem fólk telur vera draugagangur.
„24. apríl árið 2010 var ég að keyra leigubíl. Fékk túr undir morgun frá Keflavík út í Garð. Á leiðinni til baka kem ég í hringtorg sem heitir Mánatorg skammt frá Keflavík og stutt frá hringtorginu sé ég dökkklædda mannveru með hettu yfir höfðinu standa við vegbrúnina. Ég hægði niður í gönguhraða, hélt að kannski vildi viðkomandi fá far en hann sneri baki í mig og ég mjakaðist framhjá honum. Leit svo í spegilinn en hann sást hvergi. Ég stoppaði, leit í alla spegla en maðurinn virtist hafa gufað upp og ég botnaði ekki neitt í hvar hann gæti verið því þarna er sléttlendi og ekkert til að fela sig á bakvið. Mér varð ekki rótt en ákvað halda aftur af stað, var á heimleið eftir síðasta túr næturinnar.
„Um 15 mínútum síðar þegar ég var kominn heim, þá heyri ég mikið sýrenuvæl frá Hringbraut en ég átti heima skammt ofan hennar. Ég hugsaði með mér að nú hefði orðið einhver árekstur í nágrenninu en fór síðan að sofa. Fyrsta sem ég frétti þegar ég vaknaði var að það hafði orðið hræðilegt bílslys á nákvæmlega sama stað og ég sá þann dökklædda með hettuna skömmu eftir að ég fór þar hjá. 2 stúlkur létust innan sólarhrings eftir þetta slys og sú þriðja slasaðist mjög illa. Ég hef alltaf verið sannfærður um að þarna hefði einhver verið á ferð sem vissi hvað var í vændum, þ.e. dökkklædda veran sem hvarf.“
Aðrir meðlimir í hópnum er sammála því að staðurinn við Mánatorg sé óhugnalegur.