Ökumaður rafskútu slasaðist seint í gærkvöldi er hann ók á grindverk í miðbæ Reykjavíkur. Varð það til þess að maðurinn féll í jörðina og hlaut áverka á höfði. Maðurinn, sem var hjálmlaus, er talinn hafa rotast við fallið og var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar.
Aðeins hálftíma síðar gerðist slíkt hið sama í Hafnarfirði. Þar hafði ökumaður rafskútu ekið út af gangstétt með þeim afleiðingum að hann datt í jörðina og hlaut höfuðáverka. Var sá einnig fluttur á bráðadeild.
Þá mætti lögregla á vettvang í matvöruverslun í Breiðholti. Þar hafði kona verið gómuð á leiðinni út úr búðinni með matvörur sem hún ætlaði að stela. Lögreglan hafði í nógu að snúast í umferðareftirliti og stöðvaði nokkra vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.