Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ókeypis peningar sem (næstum) enginn vill

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Gunnar Dofri

Ég ætla að koma út úr skápnum með það að ég hef vandræðalega mikinn áhuga á peningum. Ekki bara þennan áhuga sem flestir hafa um að vilja eiga nóg af peningum til að komast með þokkalega góðum hætti gegnum mánuðinn, árið og lífið. Þessi áhugi ristir dýpra.

Ég er óformlegur leiðsögumaður vinahópsins um þann frumskóg sem húsnæðislánaframboð fjármálastofnana er. Ég bíð spenntur eftir ársfjórðungslegum vaxtaákvörðunum lífeyrissjóðsins sem lánaði mér fyrir íbúðinni minni og reikna út hvort endurfjármögnun borgi sig. Ég hafði það kyrfilega í huga þegar ég keypti rafhjól nýverið að fjármagnskostnaðurinn væri jú hverfandi og að hjólið borgaði sig upp á fáum árum ef ég segði upp áskriftinni minni að Strætó. Ég legg mánaðarlega fyrir áætlaða greiðslubyrði af námslánunum mínum. Hæ. Ég heiti Gunnar og ég hef lúðalegan áhuga á peningum.

Ég geri mér líka grein fyrir að það eru ekki allir eins og ég. Ég held jafnvel að langflestir séu að þessu leyti ekki eins og ég. Ekki það að ég sé eitthvað betri en aðrir. Það vill bara til að ég hef á huga á einhverju sem öðrum finnst mjög leiðinlegt en er að sama skapi mjög praktískt. Sumir vita allt um flugvélar, einhverjir kunna sögu knattspyrnuliðsins Luton utan að og aðrir geta gleymst sér í kenningum Stephen Hawking svo dögum skiptir. Ég pæli í lífeyrissjóðslánavöxtum og séreignarsparnaðarleiðum. Engar áhyggjur, ég hef líka áhuga á skemmtilegum hlutum. En það vill bara svo heppilega til fyrir mig, og óheppilega til fyrir marga aðra, að þessi peningaáhugi getur yfir lengri tíma skilað sér í því að ég muni, óháð öllu öðru, eiga meiri peninga en þau sem hafa ekki áhuga á þessu, Og það er ekki sanngjarnt.

Þess vegna verð ég dálítið leiður þegar ég les viðtöl eins og það sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku þar sem sagði að aðeins um 1 af hverjum 7 á vinnumarkaði nýttu sér þann kost að greiða séreignarsparnaðinn sinn inn á húsnæðislánin sín. [Innsk. höf.: Ef ég er ekki akkúrat núna búinn að missa alla lesendur sem ekki deila mínum furðulega áhuga á peningum yrði ég verulega hissa.]

Til viðbótar bendir ýmislegt til að þau tekjulægstu eru ólíklegust til að nýta þennan valmöguleika. Kostir þessa kerfis eru nefnilega ótvíræðir fyrir launþega. Launagreiðandi greiðir 2% til viðbótar við þau 2-4% sem launþegi greiðir í séreignarsjóð, sem síðan má ráðstafa, skattfrjálst, inn á húsnæðislán eða til að safna fyrir húsnæði. Ég, í þær sekúndur sem ég gleymi að fyrir mörgum eru þessir hlutir stórfenglega leiðinlegir, skil ekki hvers vegna hvert vinnandi mannsbarn nýtir ekki þennan valmöguleika.

- Auglýsing -

Kannski er það vegna þess að sum munar um 2-4% af laununum sínum. Það eru að hámarki um 8.000 krónur í vasann af lægstu launum á mánuði. Þær krónur yrðu hins vegar um 19.000 með mótframlagi launagreiðanda og skattfrelsinu. Mér segir þó svo hugur að stór ástæða þess að fólk hvorki greiðir í séreignarlífeyrissparnað né nýtir hann til að safna fyrir eða greiða upp húsnæði, skattfrjálst, er að einhvern veginn hafi ekki nægilega vel tekist við að kynna þennan borðleggjandi valkost fyrir fólki. Þar þurfum við peningaáhugafólkið að skoða hvað við getum gert öðruvísi til að breiða út það fagnaðarerindi að vera með leiðinlegu en mikilvægu hlutina á tæru.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -