Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
8.6 C
Reykjavik

„Okkar hlutverk er ekki að finna börn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ættleiðingum hefur fækkað en enn sem áður þarf að vanda til verka. Yfirvöld erlendis leggja síaukna áherslu á að para saman umsækjendur og barn en aðstoð við upprunaleit hefur bæst á verkefnalista Íslenskrar ættleiðingar.

Það heyrist oft að ættleiðingarferlið sé langt og biðin löng en Kristinn segir það ekki að ástæðulausu.

Ættleiðingum erlendis frá hefur fækkað töluvert síðustu ár. Víða hefur þörfin dregist saman, t.d. í Kína þar sem ættleiðingum innanlands hefur fjölgað verulega, en á sama tíma eru börn í fjölskylduleit nú jafnan eldri og/eða með skilgreindar þarfir. „Það eru færri sem treysta sér í það,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, en hann segir tölurnar langt í frá endurspegla umfang starfsemi félagsins, sem hefur aukist töluvert.

„Ættleiðingar eru barnaverndarmál. Allt sem við gerum snýr að réttindum barnsins til að eiga fjölskyldu. Okkar hlutverk er ekki að finna börn; við pössum upp á að þeir sem eru að fara í gegnum ferlið og fá þetta dásamlega hlutverk að verða foreldrar ættleidds barns séu tilbúnir til þess,“ segir Kristinn með áherslu en Íslensk ættleiðing leggur gríðarlega mikið upp úr því að undirbúa væntanlega foreldra sem allra best undir hið nýja hlutverk.

„Ættleiðingar eru barnaverndarmál. Allt sem við gerum snýr að réttindum barnsins til að eiga fjölskyldu.“

Að mörgu er að huga. Unnið er eftir íslensku módeli á grundvelli þjónustusamnings við dómsmálaráðuneytið, sem þýðir að grunnstarfsemi félagsins er tryggð þrátt fyrir sveiflur í fjölda ættleiðinga ár frá ári. Módelið gengur út á mikla fræðslu, ráðgjöf og stuðning, og það þykir bera af á heimsvísu.

Það heyrist oft að ættleiðingarferlið sé langt og biðin löng en Kristinn segir það ekki að ástæðulausu.

„Munaðarlaus börn eru öðruvísi en önnur börn; í bakpokann þeirra er búið að setja reynslu sem önnur börn hafa ekki,“ bendir Kristinn á. „Já, þetta tekur langan tíma en undirbúningurinn þarf að vera góður. Þetta er ekki skyndiákvörðun. Það þarf að bjóða þessum börnum góðar aðstæður og fjölskyldan þarf að vera tilbúin í þetta.“

Löngum var því þannig háttað erlendis að unnið var eftir númerakerfi; umsækjendur fóru einfaldlega í röð, en margt hefur breyst og yfirvöld vanda sig nú meira við að para saman umsækjendur og börn. Þetta hefur valdið því að sumir bíða í mörg ár, á meðan aðrir bíða í aðeins vikur eða mánuði.

- Auglýsing -

Í dag koma börnin flest frá Tékklandi. „Þar er ekki verið að velta því fyrir sér hversu gömul umsóknin er; það er alltaf verið að leita að réttum foreldrum,“ segir Kristinn. Sumir bíði vissulega lengi en fái svo að lokum akkúrat „sitt barn“.

Flestir sem leita til Íslenskrar ættleiðingar eru barnlausir og hafa glímt við ófrjósemi. Aðrir eiga börn, jafnvel mörg, en hefur dreymt um að ættleiða. Enn sem komið er hefur enginn einhleypur karlmaður sótt um en ein umsókn samkynja pars er í vinnslu og ef af verður verða viðkomandi fyrstu íslensku samkynja foreldrarnir til að ættleiða barn í gegnum Íslenska ættleiðingu.

Kröfur hafa aukist í kjölfar aukinnar þekkingar. Samskiptin við yfirvöld erlendis eru viðamikil og þjónustan við umsækjendur sömuleiðis. Starfsmenn Íslenskrar ættleiðingar fylgja fjölskyldun lengi eftir, allt frá fyrsta viðtali og í sumum tilvikum þar til barnið nær 18 ára aldri. Þá hafa ný verkefni bæst við, til dæmis aðstoð við upprunaleit en réttur barna til að þekkja uppruna sinn er nú vandlega tryggður í lögum.

- Auglýsing -

Verðlaunin eru hið „dásamlega kraftaverk,“ eins og Kristinn kemst að orði.

„Það tala allir um símtalið,“ útskýrir hann. „Yfirleitt var hringt í verðandi mömmu; þær eru yfirleitt duglegri að vera í sambandi við okkur. En við tókum það upp að hringja í mömmuna og pabbann í hópsímtali, þannig að foreldrarnir fá fréttirnar á sama tíma. Og það er oft grátið hamingjutárum í þessu símtali.“

Langt og strangt ferli

Ættleiðingarferlið er langt og strangt en gróflega skiptist það í 5 áfanga; forsamþykki, umsókn til upprunaríkis, pörun, að fá barnið og eftirfylgni. Miklar kröfur eru gerðar til umsækjenda, sem leggja á sig mikla vinnu til að láta drauminn um nýjan fjölskyldumeðlim rætast.

Áður en sýslumaður gefur út forsamþykki þurfa umsækjendur að sækja fjölbreytta fræðslufundi hjá Íslenskri ættleiðingu, þar sem meðal annars er fjallað um ábyrgð kjörforeldra, tilfinningatengsl, -myndun og -vanda, væntingar og breytingar, og muninn á því að eignast barn í gegnum ættleiðingu og með öðrum leiðum. Þá fá umsækjendur fjórar heimsóknir frá barnaverndaryfirvöldum.

Þegar pörun hefur átt sér stað fara læknir, lögfræðingur og sérfræðingar Íslenskrar ættleiðingar yfir gögnin áður en umsækjendur eru látnir vita. Þeir kynna sér síðan þau gögn sem liggja fyrir og gefa svar en í kjölfarið hefst undirbúningur fyrir ferðina til að sækja barnið.

Yfirleitt dvelur nýja fjölskyldan í upprunalandinu í nokkurn tíma, á meðan beðið er eftir samþykki þarlendra yfirvalda. Þegar heim kemur þarf að staðfesta réttaráhrif ættleiðingarinnar og þá heimsækir félagsráðgjafi á vegum Íslenskrar ættleiðingar fjölskylduna, samkvæmt skilyrðum upprunalandsins. Félagið heldur áfram að veita ýmsan stuðning, meðal annars í formi fræðslu og viðburða, og fylgir börnunum eftir allt að 18 ára aldri.

Miklar kröfur gerðar til verðandi foreldra

Misjafnt er eftir upprunalöndum hverjir mega ættleiða. Lágmarksaldur umsækjenda miðast oft við 25 eða 30 ár og þá gilda ákveðnar reglur um hámarksaldur. Einnig eru gerðar kröfur um lágmarks- og hámarksaldursbil milli umsækjenda og barns.

Í Tékklandi njóta barnlausir umsækjendur yfirleitt forgangs en hagsmunir barnsins eru þó ávallt hafðir að leiðarljósi. Í sumum löndum gilda reglur um hjúskaparstöðu para og þá stendur einhleypum karlmönnum ekki til boða að ættleiða frá Kína eða Tógó. Samkynhneigðir geta aðeins ættleitt frá Kólumbíu.

Öll samstarfslönd Íslenskrar ættleiðingar gera kröfu um traustan fjárhag umsækjenda og góða líkamlega heilsu. Í sumum löndunum, t.d. Kólumbíu og Kína, er aðeins hægt að sækja um að ættleiða eldra barn eða barn með skilgreindar þarfir.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -