Ólafía Kvaran er fyrsti Íslendingurinn sem hrósar sigri á heimsmeistaramóti í hindrunar- og þrekhlaupinu Spartan Race. Ólafía er heimsmeistari í sínum aldursflokki en hlaupið fór fram í Squaw Valley í Lake Tahoe í Kaliforníu í haust.
Spartan Race er hindrunarhlaup þar sem keppendur takast á við ýmiss konar hindranir á hlaupaleiðinni, sem er utanvega, og oft með töluverðri hækkun. Íþróttin nýtur gífurlegra vinsælda í Bandaríkjunum og keppendum fer jafnframt fjölgandi í Evrópu og Asíu, en keppt er í greininni í um það bil 40 löndum í heiminum.
Ólafía er 49 ára, þriggja barna móðir, en hún leiddist út í Spartan-hlaup af algjörri tilviljun. Litlum hópi frá Íslandi var boðið að taka þátt á heimsmeistaramótinu í liðakeppni í Spartan-hlaupi fyrir tveimur árum. „Mér fannst þetta svo gaman og ég hugsaði að ég yrði að prófa þetta aftur,“ segir Ólafía, sem hefur nú öðlast þjálfararéttindi í Spartan-hlaupum og hefur haldið Spartan-námskeið hér á landi sem endaði með hópferð í Spartan-hlaup erlendis.
Bakgrunnur Ólafíu er meðal annars í bootcamp sem hún hefur stundað í rúman áratug en hún er eini Íslendingurinn sem hefur tekið þátt í heimsmeistaramótinu í Spartan-hlaupi og hún setur markið hátt. „Auðvitað ætla ég að gera eitthvað meira og næsta sem er í kortunum er að reyna að smita fleiri af þessu. Næsta sem er í bígerð er að setja saman aðra hópferð í Spartan-hlaup í vor. Leiðin á heimsmeistaramótið er löng og ströng, að minnsta kosti tvö úrtökumót, en Ólafía er sannfærð að fleiri Íslendingar muni ná langt í heimi hindrunarhlaupa á næstu árum.
Ólafía er ein af þeim sem talar á fyrirlestradeginum Hamingja og árangur, á sunnudaginn 10. janúar í Hörpu. Þar mun íslenskt afreksfólk á heimsmælikvarða ræða leið sína að árangri, ásamt fagfólki í jafnvægislistinni um lífið. Meðal þeirra sem deila reynslu sinni verða þau Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðni Gunnarsson, Elísabet Margeirsdóttir, Vilborg Arna Gissuradóttir, Sölvi Tryggvason, Matti Óswald, og Ólafía, ásamt stuttum innleggjum frá Björgvin Pál Gústavssyni handbolta manni og John Snorra Sigurjónssyni fjallamanni og ofurhuga sem eru erlendis en ávarpa gesti í gegnum netið frá vettvangi.
Sjá einnig: Slysaðist á heimsmeistaramót