Ólafur de Fleur Jóhannesson, kvikmyndaleikstjóri er afmælisbarn dagsins en hann er 47 ára í dag.
Ólafur hefur smá saman mjakað sér upp metorðastigann síðan hann byrjaði í kvikmyndagerð. Til að byrja með sérhæfði hann sig í heimildarmyndum en vöktu þær allar mikla athygli og lukku. Má þar helst nefna Blindsker: Saga Bubba Morthens, Africa United og Act Normal. Síðan þá hefur hann gert kvikmyndir á borð við Kurteist fólk og Borgríki 1 og 2. Árið 2018 hljóp aldeilis á snærið hjá Ólafi en þá kom út kvikmynd í hans leikstjórn, á Netflix en það var hrollvekjan Malevolent. Um þessar mundir vinnur hann að gerð kvikmyndarinnar 62 Hours en lítið er gefið upp um myndina enn sem komið er.
Ólafur sagði í viðtali við nordnordursins.is árið 2014 að löngun hans til að fást við kvikmyndir hafi kviknað þegar hann var langt niðri, á slæmum stað í lífinu.
„En málið er að þegar maður er langt niðri, þunglyndur, þá sér maður oft kjarnann í sjálfum sér og hvað maður vill verða. Þá vaknar líka löngun eftir tjáningu og að skapa.“
Mannlíf óskar þessum hæfileikaríka leikstjóra til hamingju með afmælið!