Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ólafur Guðmundsson, leikari og leiklistarkennari: Hjálpaði mér einna mest að fá að orða skömmina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er níunda ráðstefna alþjóðlegra samtaka, IDEA (IDEA International Drama/Theatre and Education Association), sem voru stofnuð árið 1992 og hafa það á stefnuskránni að efla leiklist í menntunarlegu samhengi í skólastarfi og einnig í menntalegu samhengi úti í samfélaginu,“ segir Ólafur Guðmundsson, leikari og leiklistarkennari, um ráðstefnuna sem haldin er hér á landi þessa dagana. „Það er FLISS, Félag um leiklist í skólastarfi, sem tók þetta að sér og Menntavísindasvið Háskóla Íslands  auk þess sem þetta er haldið í samstarfi við Menntavísindastofnun sem er í rauninni bakhjarl starfsmanna Menntavísindasviðs í sambandi við skipulag á alls konar viðburðum og ráðstefnum.“

Ólafur er leikari að mennt og vann sem slíkur í 14 ár en söðlaði þá um og varð sér úti um kennsluréttindi, kenndi í grunnskólum í níu ár og síðan í 10 ár við framhaldsskóla og í dag er hann að kenna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennir tilvonandi kennurum leiklist. „Þá eru það kennaranemar sem velja sér leiklist sem kjörsvið og eru þá að sérhæfa sig í kennslu leiklistar í grunnskólum og leikskólum, bæði leiklist sem námsgrein auk þess sem leiklist er stundum notuð í tungumálakennslu, samfélagsgreinum og náttúrugreinum.“

Það er bland í poka á dagskránni.

Fólk frá öllum heiminum er komið til landsins og segir Ólafur að það vinni við leiklist í menntunarlegu samhengi. „Það sem er sérstakt við þessa ráðstefnu er að þar er mikið af smiðjum auk fyrirlestra af ýmsu tagi og svo eru haldnar kynningar á rannsóknum og þróunarverkefnum. Leiksýningar eru á kvöldin. Þannig að það er bland í poka á dagskránni.“

 

Skapandi flæði

Áhugi Ólafs á leiklist kviknaði snemma og segist hann hafa verið farinn að setja upp leikrit ásamt vinkonum sínum á Laufásborg sem þá kallaðist barnaheimili. Árin liðu og hann tók þátt í leikritum í grunnskóla og svo í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Ég held að leiklistin geti hjálpað fólki mjög mikið til þess að tengjast sjálfu sér.

- Auglýsing -

„Ég var alltaf einhvern veginn viðloðandi leiklist og svo sótti ég um að komast í Leiklistarskóla Íslands. Líklega tengist þetta þörf minni fyrir að vera innan um fólk og tengjast; vera með hópum og skapa með öðru fólki. Tjá mig og vera í skapandi flæði. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á hreyfingu og fór til dæmis í eins árs nám í Frakklandi í Leiklistarskóla Jaques Lecoq sem er skóli sem leggur áherslu á líkamann í leikhúsvinnu. Svo hef ég stundað mikið í gegnum árin Taijiog-jóga. Ég hef líka mikinn áhuga á skapandi dansi. Ég hef samt ekki lengur áhuga á að vera sjálfur að performera heldur vil ég laða fram í öðrum það sem fólk vill tjá og opna fyrir einhvers konar skapandi flæði sem og persónulegan þroska í gegnum leiklistina. Það er aðallega þess vegna sem ég er í leiklistarkennslu; ég held að leiklistin geti hjálpað fólki mjög mikið til þess að tengjast sjálfu sér og finna orkuna fyrir tjáningu sína og hreinlega opna og finna tengingar við taugakerfið og skynfærin og ná jarðsambandi. Ég er mjög mikið að hugsa um það í dag.“

Ólafur Guðmundsson

 

- Auglýsing -

Kvíðinn

Ólafur sagðist halda að leiklistin geti hjálpað fólki. Hefur hún hjálpað honum og ef svo er – hvernig?

„Á mjög margan hátt; við að takast á við mig og glíma við það að vera manneskja. Einhvern veginn að læra að slaka á og lifa með sjálfum sér. Það er kannski aðallega það.“

Maður er að vinna með sjálfsskoðun í gegnum hlutverkið.

Takast á við sig. Hvað á hann við með því?

„Til dæmis að takast á við eigingirni; ég er ekki númer eitt. Hlutirnir ganga alveg þótt ég sé kannski ekki alveg með þá á hreinu. Ég kannski fyllist kvíða yfir einhverjum hlutum. En ef ég bara geng inn í kvíðann og mæti og er í samskiptum við fólk þá fæ ég einhverja speglun á að þetta sé nú kannski alveg yfirstíganlegt og ég geti lært að deila því sem ég þarf að deila með öðru fólki í samskiptum. Svo náttúrlega speglar maður sig líka í þeim hlutverkum sem maður er að vinna með og náttúrlega líka í leiklistinni er maður alltaf að vinna beint í gegnum hlutverk sem maður leikur. Maður er að vinna með sjálfsskoðun í gegnum hlutverkið. Maður er að skoða hvernig sálarlíf annarra persóna en um leið sitt eigið. Þannig að viðfangsefnið er alltaf manneskjan.“

Hefur Ólafur barist við kvíða?

„Já, ég hef þurft að gera það í gegnum tíðina. Talandi um leiklist; hún getur líka verið uppspretta fyrir kvíða: Að glíma við það að performera fyrir framan fólk og fá gagnrýni og allir hafa skoðun á manni þegar maður stígur á svið og er í einhverju hlutverki. Þetta er eitthvað sem mjög margir og örugglega allir leikarar þurfa að glíma við og ég var alveg þar hérna áður en ég fór bara ákveðna leið í það að glíma við minn kvíða. Og kannski er ég þá að hjálpa fólki í dag að glíma við sinn kvíða í gegnum leiklistarvinnu; að tengjast sjálfum sér í líkamanum og vinna með núvitund í gegnum hreyfingu. Það er það sem hefur hjálpað mér mjög mikið. Þannig að bara að stíga inn í kvíðatilfinningar og einhvern veginn skora svolítið kvíðann sinn á hólm og gefast ekki upp gagnvart því að vera ofurseldur þessari tilfinningu.“

Ætla ég að láta sigra mig, láta þessa tilfinningu sigra mig, eða ætla ég að skora hana á hólm og halda áfram?

Ólafur er spurður um erfiðustu augnablikin þegar hann hefur barist við kvíða.

„Ég hugsa að margir hafi upplifað svona augnablik þar sem maður veit ekki hvað maður á að gera; hvernig maður á að halda áfram og veit ekki hvað gerist næst. Þá er það spurningin um að taka ákvörðun eða það var allavega í mínu tilviki; ætla ég að láta sigra mig, láta þessa tilfinningu sigra mig, eða ætla ég að skora hana á hólm og halda áfram?“

Og Ólafur hélt áfram.

„Já, ég tók ákvörðun. Ég get alveg viðurkennt það að ég hef þurft að glíma við kvíða. Ég var kannski ekkert svakalega alvarlegt tilfelli en ég viðurkenni að ég hef þurft að glíma við kvíða og það hefur verið áskorun að takast á við það; mjög mikil oft og tíðum. Ég reyndi að miðla því til nemenda minna þegar ég kenndi í framhaldsskóla en sumir sögðust glíma við kvíða og þá sagðist ég hafa gert það líka og að ég skildi hvað þeir voru að ganga í gegnum og reyndi að hvetja þau áfram.“

Ólafur Guðmundsson

Höfnun og einelti

Ólafur segir að það sem hafi mótað hann mikið sé glíma hans við að vera manneskja og glíman við tilfinningar sínar. „Kannski í rauninni mín glíma við að vera samkynhneigður og sú höfnun sem maður mætti á árum áður og í rauninni þessi feluleikur sem mótaði unglingsárin mikið.“ Hann upplifði fordóma sem strákur og þeim fylgdu einelti í skóla. „Það voru móment í skóla sem voru svolítið erfið; þau sitja svolítið í manni. Það voru erfið móment þar sem maður upplifði ákveðna höfnun frá krökkunum sem voru með manni í skóla.“

Maður var hress og svona en svo var kannski allt í klessu undir niðri.

Hann segir að skömmin sem hann upplifði hafi verið sterk tilfinning; að finnast hann sjálfur ekki vera boðlegur og ekki eiga rétt og geta ekki komið hreint fram. „Ég hef svo sem aldrei verið beint óheiðarlegur en einhvern veginn alltaf að hliðra tilfinningum mínum og halda þeim til hlés og það hefur mótað allt.“ Hann segist þó hafa verið „survivor“; lenti aldrei undir. „Maður var hress og svona en svo var kannski allt í klessu undir niðri. En maður bara hélt andlitinu og mætti keikur. Maður stóð einhvern veginn keikur og sendi bara „fuck you“-merki; kannski bjargaði það manni.

Það voru vinir mínir sem hjálpuðu mér mest sem unglingi þegar ég var að uppgötva hvernig þetta er allt saman – hvernig maður væri og tilfinningarnar og það að vera í felum. Ég eignaðist mjög góða trúnaðarvini þegar ég var unglingur og var  ég samþykktur af þeim. Ég var ekkert sá eini í hópnum sem var að glíma við eitthvað; ég var ekkert sá eini sem var að upplifa höfnun. Ég á mjög góða vini í dag sem eru ennþá vinir mínir sem ég eignaðist á þessum tíma og við höfum náð að þroskast saman og hjálpað hvert öðru að takast á við alls konar áföll í lífinu. Ég held að það skipti máli að fá tækifæri til að orða það sem maður er að glíma við; að það sé einhver sem hlusti. Að fá tækifæri til að orða það sem er að bögga mann. Eitt af því sem hjálpaði mér mest í minni glímu við mína samkynhneigð var að fá að orða skömmina. Það var frelsun fyrir mig.“ Hann talar um aðstoð fagfólks; mikilvægi þess. „Það að fá tækifæri til að nefna til dæmis skömmina, frelsaði mig frá henni.“

 

Eigin fordómar

Ólafur viðurkennir að hafa sjálfur verið með fordóma gagnvart samkynhneigð sinni sem unglingur. „Já, ég held að það sé það sem er í rauninni kannski aðalatriðið. Maður speglar alltaf samfélagið. Maður upplifir einhverja hluti og maður er með fordóma gagnvart sjálfum sér; maður vill ekki vera eins og maður er. Maður hatar sjálfan sig af því að manni finnst maður ekki fitta inn. Það getur farið út í alls konar og komið út í kvíða. Það getur komið út í alls konar óreglu. Maður vill bara losna við þetta.“

Fór Ólafur út í óreglu?

„Nei, mér hefur borið gæfa til þess að fara ekki út í mikla óreglu. Ég hef haft einhvern þröskuld. Ég djammaði eins og unglingar gerðu í gamla daga; djammaði mikið og svona en ég hafði alltaf einhvern þröskuld á mér. Ég vildi standa mína pligt eins og maður segir.“

Það fylgdi því stress að vera samkynhneigður.

Ólafur segist hafa fundið fyrir fordómum í eigin garð þegar hann var farinn að vinna sem leikari.

„Það fylgdi því stress að vera samkynhneigður. Manni fannst maður aldrei einhvern veginn vera á réttum stað. Mér fannst eins og það væru gerðar aðrar kröfur til mín heldur en var og svo fann ég fyrir óöryggi. Maður gat einhvern veginn aldrei slakað almennilega á. Mér fannst ég til dæmis ekki geta leikið gagnkynhneigða menn.“

Er Ólafur laus við eigin fordóma í dag?

„Nei, alls ekki. Það sem er í rauninni svo frábært er að það væri ekkert varið í að lifa lífinu ef það væri ekkert til að glíma við. Það fer enginn í gegnum lífið án þess að þurfa að glíma við eitthvað. Þetta er það sem ég hef verið að glíma við og mér finnst það hafa gengið ágætlega.“

Ólafur Guðmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -