Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

Olena Nikitenko flúði Úkraínu: „Áfallið sem ég varð fyrir er meira en orð geta lýst!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að morgni 24. febrúar fengum við öll SMS frá vinnunni: „Ekki fara í vinnuna! Stríðið er hafið! Áfallið sem ég varð fyrir er meira en orð geta lýst! Histería, ótti og ég grét,“ segir Olena Nikitenko sem flúði heimaland sitt, Úkraínu, og er komin til Íslands. Hún segist vera 45 ára hagfræðingur, fráskilin og eiga 24 ára gamlan son.

 

Olena Nikitenko

 

Hún er frá borginni Konstantinovka á Donetsk-svæðinu en var búin að búa í Kyev í átta ár þegar Rússar réðust inn í landið í febrúar. Hún bjó í Donetsk þegar stríðið braust út árið 2014. Skrifstofan þar sem hún vann þá var í nágrenni flugvallarins og eftir að stríðið skall á flutti hún til Kyiv þar sem hún vann í banka.

„Um mánuði fyrir innrás Rússa í febrúar síðastliðnum fengum við starfsmennirnir upplýsingar um hvað ætti að gera ef til innrásar kæmi; hvert ætti að hlaupa og hvar sprengjuskýlin væru. Ég trúði ekki að af þessu yrði fyrr en undir það síðasta.“

- Auglýsing -

Sonur Olena bjó í næsta húsi og þremur dögum eftir innrásina bað hún hann um að koma til sín þar sem henni fannst skelfilegt að vera ein í íbúðinni sinni.

Á sjötta degi stríðsins voru sprengingarnar svo öflugar að húsið hristist.

„Sprengjum var varpað á borgirnar Irpen og Bucha sem eru nálægt Kyiv og það heyrðist mjög vel í þeim og 26. febrúar reyndu Rússar að ná Kyiv. Skotbardagar voru í borginni og eldflaugum var skotið á borgina. Eftir því sem dagarnir liðu þá féllu sprengjur sífellt nær húsinu og á sjötta degi stríðsins voru sprengingarnar svo öflugar að húsið hristist.“

Olena segist hafa hætt að borða og sofa. „Hendur mínar fóru að titra og ég var hrædd við að loka augunum á kvöldin. Ég svaf í einn til tvo tíma á sólarhring.“

- Auglýsing -

Olena Nikitenko

Til í hvað sem er

Foreldrar Olena eru frá Rússlandi og fluttu til Donbass á sínum tíma. Hún segist upplifa svik vina og ættingja í Rússlandi.

„Þegar Rússar fóru að varpa sprengjum á Úkraínu þá sögðu allir ættingjar mínir í Rússlandi að það væri í lagi og að Pútín væri að gera allt rétt. Þau tóku ekkert mark á því sem ég sagði, við rifumst og við tölum ekki lengur saman. Þau styðja fullkomlega yfirgang Pútíns.“

Olena segir að vinir sínir hafi allir yfirgefið Kyiv en að enginn hafi boðið sér aðstoð.

„Á 10. degi stríðsins áttaði ég mig á því að ég gæti ekki lengur verið í Kyiv. Mig langaði til að flýja en ég gat það ekki. Lestarstöðvarnar voru troðfullar af fólki og í fyrstu voru það konur og lítil börn sem fóru. Ég á fullorðinn son og tvo hunda og okkur var ekki leyft að fara í lestina. Ég hafði samband við yfirmann minn og bað um hjálp og hann gaf mér símanúmer hjá konu sem sagðist myndu hjálpa mér upp á að komast að landamærum Moldóvu. Ég var til í hvað sem var. Ég setti niður í töskur og beið eftir að við yrðum sótt.“

Svo var náð í Olena, son hennar og hundana tvo. Meðferðis hafði hún þrjár ferðatöskur.

Enginn bauð hins vegar fram aðstoð sína.

„Við komum að kvöldi til í lítið þorp ekki svo langt frá landamærum Moldóvu og gistum á gólfi tónlistarskólans í bænum. Svo var mér sagt að ég gæti farið hvert sem ég vildi. En ég þekkti engan. Ég var svo langt að heiman og á eigin spýtur. En eitthvað í mér hafði breyst. Ég var hugrökk og tók mig saman. Ég fann rútu og við lögðum af stað til borgarinnar Chernivtsi sem er í suðvesturhluta Úkraínu. Ég hringdi í neyðarlínuna þar og þar var okkur komið fyrir á leikskóla. Eftir tvo daga hringdi ég í alla vini mína og bað þá um að aðstoða mig við að finna húsnæði. Enginn bauð hins vegar fram aðstoð sína. Við gátum ekki fengið íbúð í Chernivtsi þar sem við vorum flóttamenn og var því haldið fram að við gætum þess vegna átt erfitt með að standa að greiðslum.Ég varð mjög æst og bað son minn að hringja í alla vini sína. Yfirmaður hans gaf honum símanúmer vinar síns sem bjó í Lvov sem átti íbúð sem var mannlaus. Við tókum þess vegna lest þangað. Þarna hjálpaði okkur bláókunnugur maður.“

Mæðginin voru komin til Lvov um klukkan eitt eftir miðnætti.

„Það var kalt úti og um fjögurra stiga frost. Það var útgöngubann og við máttum ekki fara út úr lestarstöðinni þannig að við vorum þar til morguns. Sonur minn svaf á gólfinu með ferðatösku undir höfðinu og ég stakk hundunum tveimur undir jakkann minn og gekk með þá fram á morgun svo þeir dræpust ekki úr kulda.“

Olena segist hafa verið í Lviv í tvo mánuði. Hún segir að bankinn þar sem hún vann hafi sagt starfsfólki upp.

Olena Nikitenko

Til Íslands

Olena segist hafa farið að spjalla við ókunnugan mann á netinu og að hann hafi stungið upp á því að hún færi til Íslands þar sem margir Úkraínumenn væru komnir. Og hún ákvað að fara til Íslands. 10 dögum eftir komuna til landsins fékk hún vinnu við að þrífa hótelherbergi.

Mér finnst ég alls ekki vera flóttamaður hérna.

„Ég er ánægð,“ segir hún. „Ég er mjög þakklát Íslendingum fyrir að hafa tekið við mér og að ég hafi allan rétt eins og Íslendingar. Mér finnst ég alls ekki vera flóttamaður hérna. Ísland og Íslendingar eru frábærir.“

Sonur Olena býr í Kyiv. Móðir hennar hafði búið í Donbass en vegna árása Rússa þar flutti móðir hennar til Kyiv.

„Hún er þar með hundana mína sem ég ætla að sækja í desember. En mamma vill fara heim.“

Ég á engin orð til að lýsa tilfinningum mínum til þeirra.“

Olena segist hata Rússa.

„Ég á engin orð til að lýsa tilfinningum mínum til þeirra.“

Hún segist dreyma um að Rússar yfirgefi Úkraínu svo að fjölskyldan geti sameinast á ný; hún, sonur hennar og móðir.

„Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa ekki grátið heldur orðið sterkari eftir að stríðið hófst og þegar vinir mínir sviku mig. Og ég yfirgaf ekki hundana mína. Ég tók málin í mínar hendur og bjargaði fjölskyldunni minni.“

 

Olena Nikitenko

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -