Efnt hefur verið til mótmæla fyrir utan Dómsmálaráðuneytið við Sölvhólsgötu í dag klukkan 15, vegna brottvísunar albanskrar konu, sem gengin er 37 vikur á leið, og fjölskyldu hennar úr landi fyrr í vikunni. Yfirskrift mótmælanna er „óléttukellingamótmæli“.
Konunni, sem hafði verið neitað um alþjóðlega vernd, var send úr landi þvert á ráðleggingar læknis á kvennadeild Landspítala. Hún er nú stödd ásamt fjölskyldu sinni Albaníu þar sem hún þurfti að leita á sjúkrahús eftir flugið af ótta við fyrirburafæðingu.
Fjallað er um mál fjölskyldunnar í nýjasta tölublaði Mannlífs í dag þar sem rætt er við Magnús Davíð Norðdahl lögmann. „Þetta er einstaklega fautalegt og ómannúðlegt að framkvæma brottvísun á konu sem er þetta langt gengin,“ segir Magnús meðal annars, en viðtalið má lesa í heild sinni hér.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur málið vakið miklar deilur og er ástæða mótmælanna seinna í dag. „Ófrískar konur og mæður með ung börn ætla að mæta í Dómsmálaráðuneytið á Sölvhólsgötu á morgun, föstudag, kl.15 og mótmæla þeirri ómannúðlegu meðferð á fólki sem varð til þess að ófrískri konu og tveggja ára barni hennar var vísað úr landi á aðfaranótt þriðjudags!“ skrifaði Salka Gullbrá á Twitter í gær. „Barnlaus og ó-ólétt auðvitað líka velkomin.“
Sjá einnig: Kasólétt kona neydd i flug