Gríðarleg reiði er á meðal sjálfstæðismanna vegna þeirrar ákvörðunar Vinstri-grænna að kosið verði í vor en ekki í haust þegar fjögur ár verða liðin frá því efnt var til stjórnarsamstarfsins. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lét hafa eftir sér í gær að það væri ekki á valdi Svandísar Svavarsdóttur, formanns VG, að ákveða kjördag. Mikill þungi er í þeirri yfirlýsingu. Í blaðagrein í dag er Óli Björn Kárason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er afdráttarlaus í yfirlýsingum í garð samstarfsflokksins sem hann nánast fordæmir.
„Hingað og ekki lengra“, segir Óli Björn í grein sinni um ríkisstjórnarsamstarfið. Hann segir að Vinstri grænir hafi í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið og vísar þar til ályktunarinnar sem sem samþykkt var á landsfundi VG um helgina.
Hann segist ekki efast um að Vinstri grænir trúi því og treysti að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti yfir sig ganga að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum.
„En nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn,“ skrifar Óli Björn. Samkvæmt þessu er algjör trúnaðarbrestur í samstarfinu og ríkisstjórnin riðar til falls.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist vera undir 15 prósent fylgi og hrun blasir við honum ef skoðanakannarir ganga eftir. Mikil taugaveiklun er vegna þessa. VG er í enn verri stöðu og eru í útrýmingarhættiu með fylgi sem mælist í versta falli vera þrjú prósent.
Forystumenn Framsóknarflokksins horfa einnig fram á fylgishrun og hafa misst meira en helming fylgis síns. Þessu til viðbótar þá er ríkisstjórnin sú óvinsælasta í lýðveldissögunni.