Ólafur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur fór yfir tímabilið í körfubolta og lífið og tilveruna frá því að Grindavík var lokað og íbúar sendir á brott.
Ólafur sagði í samtali við Vísi að síðustu mánuðir hjá Grindvíkingum hafi verið afar erfiðir; þó að hægt væri að gleyma ástandinu á æfingum og leikjum væru andvökunætur búnar að hrella hann.
„Þetta er búið að vera erfitt. Að við þurfum að vera að ganga í gegnum þetta er ógeðslega erfitt og dagurinn í dag er búinn að vera erfiður. Síðustu sex til sjö mánuðir eru búnir að vera ógeðslega erfiðir en maður á samt alltaf að mæta og spila körfubolta. Það sem er búið að vera á herðunum á manni allan þennan tíma er búið að vera ógeðslega erfitt. Maður þarf alltaf að setja upp einhvern svip þegar manni líður illa og vissulega gleymir maður sér á æfingum og í leikjum en það eru búnar að vera margar andvökunætur og stundum ekkert sofið, bara að hugsa um hvað ef. Þetta er búið að vera skrýtið og erfitt.“
Eldgos hófst við Grindavík sama dag og oddaleikur Vals og Grindavíkur um titilinn fór fram:
„Dagurinn var ekkert til að hjálpa til því stærðin á þessu var svo mikil. Það þarf örugglega bara að leggja mig inn eftir þetta, ég er alveg andlega búinn á því. Það er ekki dropi eftir á tanknum.“
„Á maður ekki bara skilið að fara í frí?“ spyr Ólafur og bætir við:
„Við erum að fara núna í næsta mánuði í fjölskylduferð sem verður geggjað fyrir okkur, aðeins að komast í burtu. Það sem maður þarf er að komast í burtu frá þessu öllu saman. Maður er búinn að vera að standa vaktina og þetta er búið að vera ógeðslega erfitt.“ Ólafur ætlar að halda áfram og er hvergi banginn þótt veturinn hafi verið óvenjulega erfiður:
„Ég held ég þurfi bara að vinna í sjálfum mér. Þetta er búið að vera ógeðslega erfitt en ég býst við því. Það er erfitt að labba frá borði eftir þetta tímabil, eftir allt þetta erfiði og að ná þetta langt. Ég er bara ógeðslega stoltur af mínu liði, öllum þjálfurum og allri stjórninni. Öllum bænum að komast í gegnum þetta allt saman. Þetta er búið að vera algjör viðbjóður.“