Þótt lyf hafi lækkað töluvert í verði á undanförnum tveimur áratugum er lyfjaverð enn ívið hærra en gengur og gerist á Norðurlöndum. Hægt er að lækka verð enn frekar en afar ólíkar skoðanir eru á hvort það standi upp á stjórnvöld eða markaðinn að taka skrefið.
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti nýverið skýrslu um fyrirkomulag lyfsölu á Íslandi sem unnin var að beiðni velferðarráðuneytisins. Þar kemur meðal annars fram að töluverðar breytingar hafi orðið á þessum markaði frá því svæðabundin sérleyfi voru afnumin árið 1996. Lyfjaverð á Íslandi var þá, samkvæmt tölum OECD, afar hátt og var hárri álagningu heildsala og lyfsala meðal annars kennt um. Við breytinguna fjölgaði apótekum og þjónustan batnaði, segir í skýrslunni.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist eru lyf að jafnaði í dýrari kantinum miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, þótt ekki muni miklu. Að hluta til stafar það af sérstökum aðstæðum á íslenskum markaði. Markaðurinn er smár, úrval af lyfjum er minna en víðast hvar annars staðar og það kostar að koma að nýjum lyfjum á markað. Þá eru strangar verðlagshömlur sagðar draga úr áhuga framleiðenda á að selja hingað lyf. Hins vegar er það þannig að lyf eru almennt dýrari í þeim löndum þar sem velsæld ríkir og er Ísland þar engin undantekning.
Vill auka veg samheitalyfja
Bæði stjórnvöld og lyfsalar eru sammála um að hægt sé að lækka lyfjakostnað enn frekar hér á landi. Hins vegar greinir þau á um hvaða leiðir eru best færar til þess. „Lyfjaverð út úr apótekum hefur lækkað um helming frá árinu 1996 sem er merkilegur árangur í ljósi þess að þjónustan er almennt góð, apótek eru fleiri en víða annars staðar og hér eru fleiri starfandi lyfjafræðingar en í nágrannalöndunum. Hér er því verið að gera hluti sem eru til eftirbreytni en skýrslan sýnir líka að það er hægt að gera betur,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju. Það sem stendur upp á lyfsala, segir Sigríður Margrét, er að beina sjúklingum enn frekar í átt að samheitalyfjum sem í flestum tilfellum eru mun ódýrari en frumlyfin. „Rúmlega helmingur þeirra lyfja sem við seljum eru ódýrustu samheitalyf og það blasir við að þar er hægt að gera enn betur. Það er hlutverk lyfjafræðinga og starfsmanna að uppfræða fólk um samheitalyf og þannig geta neytendur sparað umtalsverðar upphæðir, sérstaklega þeir sem nota lyf að staðaldri.“
„Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga.“
Sigríður Margrét telur einnig að stjórnvöld geti lagt sitt af mörkum til lækkunar lyfjaverðs. Bendir hún á að á Íslandi greiði neytendur tæplega 60 prósent af lyfjakostnaði úr eigin vasa. Innan OECD er hins vegar hlutfallið 40 prósent að meðaltali. „Ef við lögum þetta hlutfall og förum í sama flokk og önnur OECD-ríki myndi það skila sér í mun lægra lyfjaverði til sjúklinga. Við áætlum að kostnaður ríkissjóðs við þessar breytingar séu um tveir milljarðar á ári. Svo má líka benda á að hér á landi eru lyf í hæsta virðisaukaskattsflokki en víða annars staðar bera lyf lægri eða engan virðisaukaskatt. Stjórnvöld hafa þessi tvö tæki og þetta eru klárlega lóð sem stjórnvöld geta lagt á vogarskálarnar.“
Svigrúm til lækkunar hjá heildsölum og lyfsölum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir skýrsluna draga fram að afkoma þeirra sem koma að lyfsölu sé góð. „Lyfsalar hafa verið að skila ágætum hagnaði, heildsalar hagnast betur en aðrir og afkoma lyfjadreifingaraðila er góð þótt hún hafi versnað upp á síðkastið. Þess vegna vekur skýrslan upp spurningar hvort það sé rými til lækkunar á álagningu á lyfjum miðað við þann hagnað sem fyrirtækin skila. Lækkun virðisaukaskatts er ekkert sem hefur komið til álita. Við hljótum að bíða með að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum ef það er svigrúm hjá lyfsölum og heildsölum til lækkunar,“ segir Svandís.