Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir lenti í vatnstjóni er vatn tók að leka inn í íbúð hennar. Hélt hún að húseigendatryggingin dekkaði tjónið en svo las hún smáa letrið.
Veðurfarið hefur alls ekki verið upp á sitt besta á landinu undanfarið og næsta öruggt að þónokkur húsnæði verði fyrir vatnstjóni af völdum þess. Og þá er gott að vera vel tryggður. Ólína Kjerúlf skrifaði færslu á Facebook þar sem hún sýnir vatnstjón sem orðið hefur á heimili hennar er vatn tók að leka inn í íbúð hennar eftir nýjustu lægðina sem gekk yfir landið. Hélt hún að tryggingin dekkaði tjónið en svo var ekki.
„Jæja – nú reyndi á húseigendatrygginguna hjá Verði. Asahlákuákvæðið …. því eins og allir vita hafa veðurskilyrði verið með eindæmum síðustu tvo sólarhringa og nú byrjaði skyndilega mikill leki í íbúðinni hjá okkur. En nei, því miður. Tryggingaákvæðið um tjón af völdum „skýfalls og asahláku“ bætir ekki tjón vegna „utanaðkomandi vatns“.
Það ættu að vera sektarákvæði í lögum um blekkingar í tryggingaskilmálum.“
Mannlíf hringdi í tryggingafélagið Vörð við vinnslu fréttarinnar og var beðið um að senda fyrirspurn í tölvupósti. Ekki hafði borist svar frá Verði varðandi málið þegar fréttin er skrifuð. Svarið verður birt síðar, berist það.