„LEÓ Bókaútgáfa er glænýtt fyrirtæki sem leggur áherslu á fjölbreytta bókaflokka – svo sem barnabækur, spennusögur, skáldsögur, glæpasögur og miklu, miklu fleira,“ segir Kristinn Rúnar Kristinsson ritstjóri LEÓ.
LEÓ Bókaútgáfa er langþráður draumur Ólívers Þorsteinssonar, eiganda og útgáfustjóra, en hann vildi stofna bókaútgáfu, svo hann gæti gefið út þær bækur sem hann vill gefa út. „Og á sama tíma að hjálpa nýjum rithöfundum, sem eru að stíga sín fyrstu skref, til að hasla sér völl,“ segir Kristinn Rúnar.
Fyrsta bókin sem LEÓ bókaútgáfa gefur úr er Í Hjarta Mínu, sem er eftir Ólíver sjálfan byggt og segir sögu hans. Bókin er kómedískur harmleikur sem fjallar um mann sem hefur gefist upp á lífinu. Bókin er mjög áhrifarík og á stundum átakanleg frásögn höfundar, um það hvernig hann sá framtíð sína fyrir sér og hvaða áform hann hafði gert með sjálfum sér, og tilkynnt fjölskyldu sinni. Á sama tíma er hún skemmtileg, fyndin á köflum og fer með mann allan tilfinningarússíbanann.
Bókin hefur fengið góðar viðtökur og má panta eintak á heimasíðu útgáfunnar.
Hér má lesa brot úr áttunda kafla bókarinnar, sem ber heitið 20 ára afmæli:
Næ í bjór í ísskápnum, ég ætla mér að drekka töfluna og bjórinn. En ég lofaði þeim. Hilmar og Selma, ég lofaði þeim að ég myndi reyna. Ég ætlaði að taka þennan lista í gegn með Fanndísi Ólu. Akew mun koma heim á eftir. Það mun skaða hann að labba inn og sjá mig dauðann í eldhúsinu. Fokk. FOKK. Ég kasta bjórflöskunni í gólfið, hún brotnar. Gler spýtist út um allt. Ég er að brotna niður. Andskotinn. Djöfulsins aumingi er ég. Ég vil þetta ekki lengur og þau skilja það ekki. Af hverju geta þau ekki bara … ég gnísti tönnum. Bræðin inni í mér er að brenna mig. Ég er pissfullur ennþá, get ekki hugsað skýrt. Allt er rautt.
Ég næ ekki að standa upp. Veit ekki hvað klukkan er, búinn að sitja hérna lengi. Sofnaði á einum tímapunkti. Er með verk í bakinu eftir þennan helvítis vegg, get ekki staðið upp. Bjór og glerbrot á gólfinu. Ég heyri bíl leggja fyrir utan. Ljósið lýsir inn í dauft eldhúsið. Ég kveikti aldrei ljósin, sit hérna í myrkrinu. Það er reyndar bjart, en ég sé allt dimmt. Ég græt eins og lítill strákur. Ég get ekki stjórnað mér. Einhver labbar inn og lokar á eftir sér. Andskotinn. Akew er kominn, hvernig á ég að útskýra þetta? Ég get ekki þrifið þetta upp í einum hvelli. Ég held áfram að gráta.
,,Hæ?‘‘ Akew labbar inn í eldhúsið, honum bregður. ,,Ómar, hvað kom fyrir?‘‘ Hann stekkur til mín eins og kvikmyndastjarna – hetja myndarinnar.
Ég get ekki hætt að gráta. Ég græt samt ekki hátt; ég öskra ekki eins og sumir gera. Ég græt í hljóði og hann sér það. Akew sér niðurbrotinn mann og áður en ég veit af situr hann við hliðina á mér. Hann tekur mig í fangið sitt og faðmar mig. Ég hef ekki verið faðmaður lengi. Hann er sterkur, traustur og hlýr. Hann strýkur yfir hárið mitt. Við segjum ekki neitt. Tárin leka niður kinnar mínar. Ég var næstum búinn að gleyma því hvernig það var að vera snertur af annarri manneskju. Ég hef tekið í höndina og faðmað annað fólk en ekkert annað. Þetta er annað. Hann er að sýna mér ást og umhyggju. Ég man þegar ég var í 10. bekk, ég fann mig þá í nýjum vinahópi. Og mér leið svo vel, kynntist stelpum. En þær voru ekki vinkonur mínar, Rakel var eina vinkona mín. Hún talaði við mig, sýndi mér ást og umhyggju. Djöfull er ég væminn. Ég gleymi aldrei þegar við lágum í rúminu hennar, hún var í fanginu mínu. Ég strauk yfir handlegginn hennar og hún strauk yfir handlegginn minn. Ég fann fyrir von og ást í hjarta mínu. Hún var í svartri Adidas-peysu. Rakel hætti allt í einu að strjúka handlegginn minn og sagði: „Ég vildi að við gætum verið hérna að eilífu.“ Ég vildi að ég gæti farið til baka. Kysst hana og sagt henni að ég elskaði hana. Ég vildi að ég hefði reynt, reynt að lifa.