Mánudagur 28. október, 2024
3.5 C
Reykjavik

Öllu tjaldað til á 20 ára afmæli Eddunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eddan, uppskeruhátíð íslenska kvikmynda- og sjónvarpsgeirans, fer fram í Austurbæ í kvöld.

Edduhátíðin fer fram í Austurbæ í kvöld, en þá verða sjónvarps- og kvikmyndaverðlaun veitt af Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunni, ÍKSA, fyrir bestu frammistöðu og verk í nokkrum völdum flokkum. Þetta er í 20. sinn sem hátíðin er haldin og segir Hlín Jóhannesdóttir, formaður ÍKSA, að mikil eftirvænting sé fyrir kvöldinu.

„Já, það er sko óhætt að segja að það ríki mikil spenna,“ segir hún hress. „Því fyrir utan það að þetta sé árleg uppskeruhátíð kvikmyndagerðarfólks, erum við auðvitað líka að fagna því að nú eru 20 ár liðin frá því að Edduverðlaunin voru fyrst afhent, sem gerir kvöldið enn hátíðlegra.“

Það er sko óhætt að segja að það ríki mikil spenna.

Þetta er þriðja ár Hlínar sem formanns ÍKSA og fimmta ár hennar í stjórn. Spurð hvort eitthvað sérstakt einkenni Edduna í ár öðru fremur segir hún að fyrst og fremst beri hátíðin merki fagmennsku íslensks sjónvarps- og kvikmyndagerðarfólks. Gæði innlends sjónvarps- og kvikmyndaefnis hafi aukist jafnt og þétt og síðustu ár hafi greinin tekið stökk, þökk sé elju og metnaði fólks í geiranum.

Á fyrstu Edduhátíðinni 1999 hafi verið verðlaunað í átta flokkum, auk þess sem heiðursverðlaun Eddunnar voru veitt. Það segi sitt um metnað og dug íslensks kvikmyndagerðarfólks að nú, 20 árum síðar, sé keppt um Edduna í 26 verðlaunaflokkum. Og þegar þessari hátíð ljúki verða Edduverðlaunin frá upphafi orðin 403 talsins.

Á Eddunni í kvöld verða veitt verðlaun í 26 flokkum auk heiðursverðlauna. Í flokknum Besta mynd ársins stendur valið á milli þriggja kvikmynda: Lof mér að falla, sem er með samtals 12 tilnefningar, Kona fer í stríð, sem er með næstflestar tilnefningar, eða 10 talsins, og Andið eðlilega með 9 tilnefningar.

„Við getum verið afskaplega stolt af þeirri stöðu sem greinin er í í dag,“ segir Hlín. „Sem dæmi hafa kvikmyndirnar þrjár sem eru tilnefndar sem besta myndin í ár, Andið eðlilega, Kona fer í stríð og Lof mér að falla, allar hlotið alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar og eftirspurn eftir íslensku sjónvarps- og kvikmyndaefni úti í heimi hefur sjaldan verið eins mikil og akkúrat núna. Sem sýnir bara að Íslendingar tefla fram gæðaframleiðslu á öllum sviðum, framleiðslu sem er á heimsmælikvarða. Enda er fólk erlendis steinhissa á því hvað það kemur mikið af vönduðu og fjölbreyttu efni frá jafnfámennri þjóð. Efni sem einkennist oftar en ekki af skemmtilegum vinklum og frumlegum efnistökum. Sem er auðvitað alveg frábært, en minnir líka á hversu miklu máli skiptir að leggja áfram rækt við þessa grein.“

Athygli vekur að aldrei hafa jafnmargir leikarar af erlendum uppruna verið tilnefndir fyrir leik. Leikkonan Babetida Sadjo er tilnefnd fyrir aukahlutverk í kvikmyndini Andið eðlilega og Paaru Oja og Kaspar Velberg eru tilnefndir fyrir aðalhlutverk og aukahlutverk í Undir halastjörnu.

 Ekki bara verðlaunahátíð

- Auglýsing -

Hlín segir að í kvöld gefist því ekki síður tækifæri til að fagna því hversu langt íslenskt sjónvarps- og kvikmyndagerðarfólk hefur náð á alþjóðavísu.

„Við stjórnin höfum verið að vinna að því að vekja fólk innan bransans til vitundar um að þetta er ekki eingöngu verðlaunahátíð, heldur líka uppskeru- og sameiningarhátíð. Hluti af því felst í því að stefna ekki bara þeim sem eru tilefndir til Edduverðlauna í ár heldur fleira fólki úr kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Við viljum einfaldlega gera meira úr Eddunni og vinna að því að hún verði sameiningarvettvangur fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Vettvangur til að fagna saman.“

Eins og áður kom fram verður Eddan með örlítið hátíðlegri blæ nú í ljósi þeirra 20 ára sem eru liðin síðan hún var fyrst haldin. Hlín getur þess að viss árshátíðarstemning muni einkenna kvöldið. „Já, við höfum unnið að því að skapa þannig anda, bæði með því að halda hátíðina á föstudegi en ekki sunnudegi, bjóða fleirum til leiks og færa hátíðina yfir í Austurbæ, gamla Austurbæjarbíó, þar sem boðið verður upp á popp auk annarra veitinga.

- Auglýsing -

Það má því kannski segja að það verði líka ákveðið bíóþema í kvöld með áherslu á þessi 20 ár og svo fullt af skemmtilegum viðburðum en kynnir kvöldsins er Logi Bergmann Eiðsson,“ lýsir hún. „Það á því engum eftir að leiðast í kvöld, allra síst áhorfendum heima fyrir,“ bætir hún við en RÚV verður með beina útsending frá hátíðinni í kvöld og hefst hún klukkan níu

Mynd / Vilborg Einarsdóttir

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -