Svo virðist sem nýtt æði hafi gripið um sig hér á landi en það er að sprauta sig með sykursýkislyfinu Saxenda daglega í þeim tilgangi að léttast. Íslenskur áhrifavaldur sagði fylgjendum sínum frá þessu „undraefni“ sem kom bylgju af stað meðal kvenna.
Lyfið er aftur á móti lítið rannsakað og virðist geta valdið alvarlegum aukaverkunum. Auðvitað þurfa sumir á lyfinu að halda og það er bara jákvætt ef það hjálpar við baráttuna við ofþyngd og heilsubresti. Mannlíf kafaði ofan í málið.
Mannlíf ræddi meðal annars við Ólöfu Töru Harðardóttur, einka- og næringarþjálfa, um BMI stuðulinn sem er notaður meðal annars sem forsenda og mælitæki til þess að fá Saxenda uppáskrifað.
„BMI er ekki mælieining sem við getum notað til þess að mæla heilsufar einstaklinga. Hlutfall þyngdar miðað við hæð getur ómögulega vera mælikvarði á heilsu. Heilsa er flóknari líffræði en svo. BMI gerir ekki ráð fyrir vöðvamassa, beinþèttni, kynþætti sem og þeim líffræðilega mun sem er á körlum og konum. Heilbrigðiskerfið virðist sætta sig við það að vera mörgum ljósárum á eftir þegar það kemur að vitneskju um heilsufar.
Fólk er sett á þyngdarstjórnandi lyf sem hafa í för með sér slæmar aukaverkanir, lyf sem jafnvel valda því að bæta þurfi við öðrum lyfjum til þess að minnka þær aukaverkanir, allt í nafni heilsunnar. BMI er mælikvarði sem er mikið notaður til þess að réttlæta notkun á slíkum lyfjum. Það er auðveldlega hægt að sleppa slíkum lyfjum í mörgum tilfellum ef heilbrigðiskerfið hefði vilja til þess að endurskoða skilgreiningu heilsu sem við vitum að er meiri og dýpri. Í raun og veru eru BMI notaður sem réttlæting áframhaldandi ofbeldis sem feitt fólk hefur þolað í áratugi.“