Ölvaður einstaklingur á rafmagnshlaupahjóli ók á ferðamann á Klambratúni um helgina. Ferðamaðurinn var fluttur á slysadeild en ökumanni rafmagnshlaupahjólsins þótti lögreglan óþarflega afskiptasöm.
Það var í mörg horn að líta hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina, en m.a. voru tuttugu og tveir ökumenn teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar.
Þar segir að einn þeirra sem tekin var fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur var á rafmagnshlaupahjóli. „Sá ók á erlendan ferðamann á Klambratúni. Ferðamaðurinn var fluttur á slysadeild, en ökumaður hjólsins var handtekinn og var hann heldur hissa á afskiptum lögreglunnar og þótti frekar mikið úr þessu gert,“ segir í færslunni.