Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bündchen prýðir forsíðu tímaritsins Vogue Italia sem fer í sölu í dag. Gisele er algjörlega ómáluð á forsíðunni, sem og á myndum inni í tímaritinu, en þetta er í fyrsta sinn í sögu ritsins þar sem forsíðustúlkan er ómáluð og ekki er heldur búið að eiga við hár hennar.
Það var ljósmyndarinn Jamie Hawkesworth sem tók þessar fallegu myndir af Gisele, en serían heitir einfaldlega Sunday With Gisele, eða sunnudagur með Gisele.
Inni í tímaritinu veitir hún lesendum innsýn í líf sitt með ruðningsstjörnunni Tom Brady á heimili þeirra í Boston. Virðist líf fyrirsætunnar ósköp venjulegt, þó hún sé næsthæstlaunaðasta fyrirsæta heims og gift stjörnunni í New England Patriots, en liðið tapaði í Ofurskálinni síðustu helgi.
Til að gera nándina enn meiri, notaði Jamie eingöngu náttúrulega birtu þegar hann myndaði Gisele. Þá tók hann myndirnar á filmu, uppá gamla mátann, til að tryggja að ekki yrði átt við hreint og fagurt andlit fyrirsætunnar.
Vogue Italia deilir einnig mínútu löngu myndbandi af fyrirsætunni þar sem hún talar meðal annars um barnæskuna og móðurhlutverkið. Einstaklega einlægt og fallegt myndband sem sjá má hér fyrir neðan:
Texti / Lilja Katrín
[email protected]