„Þetta er orðið óttalega þreytandi og leiðinlegt. Fólk hefur haft það á orði að best væri ef að gysi bara og þá væri málið frá. Þá myndi þrýstingurinn hverfa og hraunið færi einfaldlega út í sjó og við værum við laus við þetta,“ segir Önundur Haraldsson, vélstjóri og íbúi í Grindavík, um það ástand sem hefur verið í bænum vegna jarðskjálftanna sem eiga upptök sín í Nátthaga, dalverpi í grennd við Fagradalsfjall.
Höfum sloppið vel
Önundur er ýmsu vanur og lætur sér ekki bregða þótt jörðin skjálfi.
„Sumir finna meira fyrir þessu en aðrir. Ég hef verið í alls kyns veðrum í svo marga áratugi á sjó að ég finn minna fyrir þessu en margir, þótt það ruggi undan löppunum á manni.“ Önundur segir að hann hafi frétt af smáræðis skemmdum innanhúss hjá Grindvíkingum en þau hjónin hafi sloppið vel.
„Það duttu myndir úr hillum en ekki meira en það,“ segir Önundur.
Sumir eiga erfiðara með svefn
Hann segir marga vera með varann á sér, ástandið sé stressandi og hann hafi heyrt af því sumir íbúanna eigi verra með svefn en áður. Sjálfur finni hann ekki fyrir svefnleysi.
„Fólk er ótrúlega rólegt, heilt á litið. Það er ekki að fara úr bænum til ættingja annars staðar á landinu. Það er frekar að maður haldi sig meira heima við“.
Sjálfur á hann tengdafólk fyrir norðan og þangað séu þau hjónin alltaf velkomin en hann kjósi að vera í Grindavík þar sem börnin hans þrjú og barnabörnin búa.
„Við hjónin vorum til dæmis að spekúlera í að skjótast í ferð austur fyrir fjall en ákváðum að sleppa því. Tvær dætur mínar eru til að mynda giftar sjómönnum. Ég vil vera til staðar fyrir fólkið mitt ef eitthvað kemur upp á og þeir úti á sjó“.
Heima er best
Að sögn Önundar hafi hann og vinir hans rætt það hvað þeir myndu gera ef gysi af einhverjum krafti. Allir vorum við sammála að við yrðum að flytja en það yrði tímabundið. „Við erum sannfærðir um að við kæmum alltaf aftur heim“.
Hann vísar til þess hve hættuleg innsiglingin í Grindavík er í slæmum veðrum. Oft hafi stórhætta skapast en menn láti það ekki á sig fá fremur en skjálfana,
„Nei, heima er best“ segir Önundur, pollrólegur yfir ástandinu.