Eftir / Ole Anton Bieltved
Kæri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson.
Dýra- og náttúruverndarsamtökin Jarðarvinir hafa rekið tvö sakamál gegn forráðamönnum Hvals hf. vegna meintra brota þeirra á reglugerðum vegna hvalveiða og verkunar hvals, svo og vegna meintra brota þeirra á ákvæðum veiðileyfa, þar sem sekt forráðamanna Hvals hf. hefur sannast.
Er annars vegar um lögreglumál nr. 313-2018-19923 að ræða, þar sem það sannaðist að Hvalur hf. hafði árum saman (2013, 2014 og 2015) brotið ákvæði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 489/2009.
Refsirammi fyrir þessi brot:
Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum skv. 22. gr. reglugerðarinnar. Hér féll lögreglustjórinn á Vesturlandi af illskýranlegum ástæðum frá ákæru.
Hins vegar er um lögreglumál nr. 313-2019-8012 að ræða, þar sem það sannaðist að Hvalur hf. hafði brotið 5. gr. veiðileyfis fyrir árin 2014-2018 um afhendingu veiðidagbóka fyrir þetta tímabil, en þessu máli var lokið með lögreglustjórasekt í júlí 2020.
Skv. 7. gr. veiðileyfisins (frá 15.5. 2014) eru refsiákvæði fyrir þessi brot þessi: „Brot á ákvæðum leyfisbréfs þessa og sérhver misnotkun á því varðar sviptingu leyfisins tímabundið eða missi þess eftir ákvörðun ráðuneytisins. Einnig varða brot sektum og öðrum viðurlögum samkvæmt lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar með síðari breytingum.“
Refsirammi skv. þessum lögum er sektir 2.000-40.000 gullkrónur, upptaka á veiðitækjum skipsins, byssum, skotlínu, skutlum og skotfærum, svo og öllum afla skipsins, auk þess sem láta má brot varða fangelsi allt að sex mánuðum þegar sakir eru miklar eða um ítrekað brot er að ræða.
Telur ráðherra ekki rétt og eðlilegt, með tilliti til sakfellingar forráðamanna Hvals hf. í ofangreindum tveimur sakamálum vegna brota á hvalveiðireglugerð og ákvæðum síðasta hvalveiðileyfisins nú í millitíðinni, að afturkalla nýtt leyfi til veiða á langreyði fyrir árin 2019-2023 (frá 5.7. 2019)? Væri það ekki góð og eðlileg stjórnsýsla?
Bestu kveðjur Ole Anton.