Special Olympics á Íslandi halda opið golfmót sunnudaginn 19. júlí, á Hólmsvelli í Leiru. Allir kylfingar eru hvattir til að mæta með fjölskyldu og vinum og taka þátt í skemmtilegu golfmóti.
Fyrirkomulagið er Texas Scramble, 2 í liði og allur ágóði rennur til Special Olympics.
Mæting kl. 08.15 og ræst út kl. 09.00 af öllum teigum í einu.
Opnað hefur verið fyrir skráningu í golfbox.dk en mótsgjald er 5.900 kr. Innifalið í því eru teiggjafir, verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sæti, lengsta teighögg og næst holu, hamborgari og gos í lok móts og að endingu dregið úr skorkortum sem er í anda Special Olympics, að allir hafi möguleika á að vinna til verðlauna.
Special Olympics samtökin voru stofnuð árið 1968 og er markmið samtakanna að stuðla að því að fólk með þroskahömlun geti tekið þátt í íþróttastarfi. Iðkendur í dag eru yfir sex milljónir frá yfir 190 löndum og samtökin standa jafnframt að stærstu íþróttaviðburðum í heimi sem eru alþjóðaleikar Special Olympics sem haldnir hafa verið víða um veröld. Starfið hefur þróast hratt og auk íþróttastarfs eru samtökin öflug í baráttu fyrir bættri menntun, heilsu og almennum mannréttindum þessa hóps.
Samfélagsleg verkefni hafa verið einkennandi fyrir samtökin og árið 1981 hófst samstarf Special Olympics International við lögregluna. Samstarfið er byggt á því að lögreglumenn hafa umsjón með kyndilhlaupi fyrir leika Special Olympics. Eru meðlimir LETR hátt í 150 þúsund frá yfir 50 löndum og standa að styrktarmótum fyrir Special Olympics og jafnframt til að auka almenna vitund um samtökin.
Íslenska lögreglan hóf samstarf við LETR árið 2013 og hefur staðið fyrir kyndilhlaupum vegna Íslandsleika og annarra viðburða Special Olympics.