Í væntanlegri bók lýsir fyrirsætan Gisele Bündchen þeim mikla kvíða sem hún hefur glímt við í gegnum tíðina.
Fyrirsætan Gisele Bündchen opnar sig um kvíða og þunglyndi í nýrri bók hennar sem kemur út í byrjun október. Í bókinni segir hún meðal annars frá kvíðaköstum, innilokunarkennd og miklum ótta sem hún hefur glímt við í gegnum tíðina.
„Mér fannst eins og allt í lífinu gæti drepið mig,“ skrifar hún. „Fyrst voru það flugvélar svo lyftur. Svo voru það undirgöng, hótel, ljósmyndastúdíó og bílar. Síðan var það mín eigin íbúð. Allt hafði breyst í búr og ég var dýr sem var læst inni.“
Í bókinni greinir Bündchen einnig frá því að sjálfsvígshugsanir hafi gert vart við sig þegar hún var 23 ára. „Þegar ég hugsa til baka til þessa tíma, og þessarar 23 ára stelpu, þá langar mig til að gráta. Mig langar til að segja henni að þetta verði allt í lagi.“
Bündchen kveðst vera komin á betri stað í dag þökk sé heilsusamlegum lífsstíl og aðstoð frá læknum.
Bók Bündchen heitir Lessons: My Path to a Meaningful Life og kemur út 2. október.