Föstudagur 15. nóvember, 2024
-0.1 C
Reykjavik

Orð eins legókubbar tungunnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann út 21. nóvember árið 1938 kom fyrsta tölublaðið af Vikunni út og blaðið fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Vikan hélt hins vegar upp á afmælið í gær með veglegu partíi og útgáfu afmælisblaðs. Við tókum ritstjóra Vikunnar, Steingerði Steinarsdóttur, tali í tilefni af þessum merkilegu tímamótum.

„Afmælisblaðið er áttatíu síður að sjálfsögðu og þar lítum við um öxl en njótum líka augnabliksins,“ segir Steingerður glöð í bragði. Á forsíðu afmælisblaðsins er Birgitta Haukdal sem átti eftirminnilega endurkomu með hljómsveit sinni Írafári í sumar. „Okkur fannst hún skemmtilegur fulltrúi þeirra kvenna sem hafa í gegnum tíðina skreytt forsíðuna en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgitta er á forsíðu Vikunnar. Sigríður Beinteinsdóttir söngkona er líka í stóru viðtali um það sem er efst á baugi hjá henni. Hljómsveit hennar Stjórnin átti líka stórafmæli í ár og svo heyrum við í Svövu Johansen um sveiflurnar í tískunni og hvernig hún fer alltaf í hringi. Báðar þessar konur hafa líka oft áður verið í blaðinu. Við töluðum við alla fyrrrennara mína sem voru enn ofar moldu og fengum þeirra sýn á blaðið. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Talað var við Pál Helgason í Vestmannaeyjum, jafnaldra Vikunnar og hennar tryggasta áskrifanda. Við lögðumst svo yfir gamalt efni og drógum fram það sem einkennt hefur Vikuna í gegnum tíðina, gert hana leiðandi og sífellt markverða. Það er gaman að vera hluti af einhverju sem á sér mikla sögu en er alltaf síungt.“

Steingerður segir að ýmislegt hafi breyst í blaðinni í áranna rás. „Helst hefur breyst hvað viðtöl eru miklu stærri hluti blaðsins. Efnistökin eru líka breytt en núna er fólk óhræddara við að tala um tilfinningar en áður var og opna sig um erfiða hluti. Margt lá áður falið í þögninni en við höfum til allrar lukku lært að það gerir manneskjum ekkert gott að byrgja allt inni. Þegar þú stígur fram og talar eins og þér býr í brjósti og ert þú sjálfur sýna aðrir þér oftast meiri skilning en þú áttir von á. Ég finn oft fyrir mikilli gleði þegar fólk segir mér að í kjölfari viðtals hjá okkur hafi verið hægt að byggja aftur brýr sem höfðu brotnað og bera smyrsl á gömul sár.“

Oft sker í hjartað að sjá sársaukann

Steingerður tók við ritstjórn Vikunnar í maí 2013. Hún skrifaði hins vegar fyrst í blaðið í lausamennsku 1994 og sumarið 1998 fékk hún fastráðningu sem blaðamaður. „Ég vann svo á Vikunni til ársins 2006 en þá bauðst mér starf sem ritstjóri á tímaritinu hann/hún sem var nýstofnað og mér fannst það tækifæri of spennandi til að sleppa því. Svo sneri ég aftur á Vikuna fyrir fimm árum,“ segir Steingerður og aðspurð segist hún gegna besta starfi í heimi. „Flestir dagar fljúga hjá og oft finnst mér ég ekki einu sinni hafa verið í vinnunni svo gaman var. Sérstaðan felst í því að við erum alltaf að fara með sögur fólks og mér finnst mikilvægt að gera það af trúmennsku og virðingu við viðmælandann.

Áhugaverðast við starfið er allt fólkið sem við hittum og skemmtilegast að sjá verða til fallegt blað með góðum texta og lifandi myndum. Ég hef alltaf verið heilluð af blaðamannsstarfinu. Bæði hef ég yndi af að vinna með orð og fólk hefur alltaf vakið áhuga minn. Fyrir mér eru orð eins legókubbar sem hægt er að raða saman á ótal vegu til að skapa andrúmsloft, draga upp mynd af manneskju og ná fram tilfinningaviðbrögðum. Fátt er skemmtilegra nema ef vera skyldi að heyra fólk segja frá, upplifunum sínum, tilfinningum og lífi. Lifandi sögur sem fá enn meira gildi af því að þær eru sannar. Af þessu er svo hægt að draga margvíslegan lærdóm um hvað rekur fólk áfram, hvernig tilfinningalíf okkar er ólíkt en samt svo ótrúlega líkt. En það getur líka verið erfitt að hlusta á manneskju segja frá átakanlegri lífsreynslu. Oft sker það í hjartað að horfa upp á sársaukann og skynja hve stutt er enn inn í opna kviku þótt hrúður hafi sest á sárið,“ segir Steingerður.

- Auglýsing -

Törn framundan

Þrátt fyrir mikla mikla vinnu að undanförnu og allt húllumhæið sem fylgdi afmælisveislu fimmtudagsins slá blaðamenn Vikunnar hvergi slöku við enda stærstu blöð ársins framundan. „Kökublað, jólablað og völvublaðið sívinsæla. Völva Vikunnar varð til á áttunda áratug síðustu aldar og hefur síðan verið ómissandi hluti af áramótunum hjá mörgum,“ segir Steingerður að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -